Golf

Fabian Gomez sigraði á Sony Open eftir ótrúlegan lokahring

Gomez ásamt dóttur sinni og kylfusveini þegar að sigurinn var ljós.
Gomez ásamt dóttur sinni og kylfusveini þegar að sigurinn var ljós. Getty

Argentínumaðurinn Fabian Gomez sigraði á Sony Open sem kláraðist í gær en þetta er annar sigur hans á PGA-mótaröðinni á innan við ári.

Gomez var fjórum höggum á eftir efstu mönnum fyrir lokahringinn en hann lék magnað golf í hitanum á Hawaii í gær og kom inn á 62 höggum eða átta undir pari.

Hann fékk alls tíu fugla á lokahringnum sem komu honum í bráðabana á móti Brandt Snedeker sem hafði verið í forystunni nánast allt mótið en þar hafði Gomez betur eftir að hafa fengið enn einn fuglinn á 18. holuna á Waialae vellinum.

Bandaríkjamaðurinn ungi, Zac Blair, endaði einn í þriðja sæti á 19 undir pari samtals, einu á eftir Snedeker og Gomez en hann missti stutt pútt á lokaholunni til að komast í bráðabanan.

Fyrir sigurinn fékk Gomez rúmlega 130 milljónir króna í verðlaunafé ásamt mögulegu sæti á ólympíuleikunum í Ríó í sumar fyrir hönd Argentínu.

Næsta stóra mót í golfheiminum fer fram um næstu helgi en þá munu Jordan Spieth, Rory McIlroy og fleiri sterkir kylfingar berjast um Abu Dhabi meistaratitilinn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira