Innlent

Þrjátíu daga fangelsi fyrir fölsuð vegabréf í Keflavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Vísir/Valli
Tveir karlmenn, á þrítugs og fertugsaldri, hafa verið dæmdir í þrjátíu daga fangelsi fyrir skjalafals. Báðir framvísuðu þeir fölsuðu vegabréfi við lögreglu á Keflavíkurflugvelli fyrr í mánuðinum.

Annar maðurinn er á 21. aldursári og frá Síerra Leóne en hinn er 33 ára Sýrlendingur. Báðir mennirnir áttu bókað flug frá Íslandi til Toronto með Icelandair. Annar 7. janúar en hinn 9. janúar.

Sjá einnig:Tilgangslaus passamál

Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem þeir hafa setið í síðan þeir voru handteknir.

Hæstiréttur taldi ekki rétt að gera Sýrlendingnum refsingu.Vísir/GVA
Samskonar mál fór fyrir Hæstarétt

Nýverið dæmdi Hæstiréttur í máli sýrlensks flóttamanns sem hlotið hafði dóm í héraði fyrir að framvísa albönsku vegabréfi í flugstöðinni. Var það niðurstaða Hæstaréttar í því máli að gera manninum ekki refsingu.

Í dómnum kom fram að ekki hafi verið dregið í efa að Sýrlendingurinn væri flóttamaður og lífi hans og frelsi hefði verið ógnað í Sýrlandi. Hann hefði þó ekki gefið sig fram tafarlaust við stjórnvöld til að bera fram ástæður fyrir komu sinni. Þrátt fyrir það var talið rétt að ákærða yrði ekki gerð refsing.

Sé staða þeirra aðila sem um ræðir í máli þessu sambærileg við þá stöðu sem uppi var í niðurstöðu Hæstaréttar er ólíklegt að mennirnir tveir þyrftu að sitja af sér þrjátíu daga refsinguna yrði dómnum í héraði áfrýjað til Hæstaréttar.

Ítarlega var fjallað um mál á borð við þessi í Fréttablaðinu í desember og má lesa umfjöllunina hér. Málin hafa kostað ríkið um 60 milljónir króna frá árinu 2010 samkvæmt grófu mati fangelsismálastjóra.


Tengdar fréttir

Sextíu milljónir í tilgangslaus passamál

Frá 2010 hafa 168 erlendir ríkisborgarar verið dæmdir og afplánað refsingu fyrir að framvísa fölsuðu vegabréfi við komu til landsins. Fangelsismálastjóri segir ferlið tilgangslaust, kostnaðarsamt og að oft sé um að ræða fórnarlömb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×