Innlent

Ætlaði að skoða gögn manns með svipaða kennitölu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Húsnæði umboðsmanns skuldara.
Húsnæði umboðsmanns skuldara. vísir/vilhelm

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða konu á sextugsaldri 6,5 milljónir króna í skaðabætur eftir að henni var vikið úr starfi hjá umboðsmanni skuldara með ólögmætum hætti. Konunni var sagt upp fyrirvaralaust eftir að upp komst að hún hafði skoðað trúnaðargögn sem tengdust málefnum fyrrverandi eiginmanns hennar.

Konan, sem hafði lokið grunnnámi í lögfræði, hóf störf hjá umboðsmanni skuldara árið 2010 og fékk fastráðningu í janúar 2011. Frá nóvember þess árs til loka september 2013 starfaði hún sem ráðgjafi hjá stofnuninni en þá tók hún við sem deildarstjóri ráðgjafaþjónustu.

Umboðsmaður skuldara hafði til meðferðar þrjú mál sem vörðuðu fyrrverandi eiginmann konunnar, tvö ráðgjafarmál og eitt mál sem varðaði greiðsluaðlögun hans. 8. mars 2014 sendi maðurinn bréf á stofnunina þar sem fram kom að fyrrverandi eiginkona hans hefði tekið fjármuni út af bankareikningi sem innihélt húsaleigutekjur af sameiginlegri eign þeirra. Þremur dögum áður hafði konan skoðað upplýsingar um eignir, skuldir, tekjur og framfærslu hans.

Í kjölfarið var konan boðuð á fund og hún upplýst um að hún væri grunuð um að hafa brotið af sér í starfi en henni ekki tjáð hvers eðlis brotið væri. Var hún í send í ótímabundið leyfi vegna þessa. Síðar kom í ljós að hún hafði skoðað gögn manns síns í tvígang áður, í desember 2012 og júlí 2013.

Ósannað að eigin hagsmunir hafi verið markmiðið
Það var mat stjórnenda stofnunarinnar að með aðkomu sinni að málum eiginmanns síns fyrrverandi hefði hún brotið gegn hæfisreglum stjórnsýslulaga og siðareglum stofnunarinnar. Þá hafi hún einnig gerst brotleg gegn ákvæðum laga um persónuvernd og 4. grein laga nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara þar sem segir að starfsmönnum sé óheimilt að greina frá hlutum sem þeir verða áskynja í starfi sínu.

Konan fékk tvær vikur til að svara þeim ásökunum sem á hana voru bornar. Bar hún því þá meðal annars við að „hún hafi opnað gögn eiginmanns síns óviljandi þegar hún ætlaði að opna mál annars manns sem hafði svipaða kennitölu.“ Hélt hún því til streitu að uppsögn hennar hefði verið ólögmæt en ekki var fallist á það af fyrrverandi vinnuveitanda hennar.

Í niðurstöðu dómsins segir að sannað sé að konan hafi skoðað gögnin en ósannað að hún hafi gert það með vilja í öllum tilvikum. Þá þótti einnig ósannað að hún hafi gert það með það að leiðarljósi að bæta eigin hag eða skerða hag fyrrverandi eiginmanns síns eða kröfuhafa.

Í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að heimilt sé að víkja starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi hafi hann verið sviptur með fullnaðardómi réttindum til að gegna því starfi eða hafi hann játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þau skilyrði voru ekki uppfyllt í máli þessu.

Fyrir dómi bar lögmaður ríkisins því við að samkvæmt reglum almenns vinnuréttar væri heimilt að rifta ráðningarsamningi hafi starfsmaður vanefnt skyldur sínar verulega. Sama regla ætti að gilda um mál þetta. Þessu hafnaði dómari málsins og benti á að um málefni ríkisstarfsmanna giltu sérstök lög. Ráðningarsamningi konunnar hefði verið rift bótalaust og án launa í uppsagnarfresti. Með því hefði ríkið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og skýrum fyrirmælum starfsmannalaga.

Konunni voru því dæmdar bætur að álitum, alls 6,5 milljónir króna. Upphafleg bótakrafa hljóðaði upp á rúmar tuttugu milljónir króna. Að auki var ríkinu gert að greiða 1,5 milljónir króna í málskostnað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira