Bíó og sjónvarp

Balti báðum megin við kvikmyndatökuvélina

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Baltasar leikur hjartalækni í þrusugóðu formi og hefur leikstjórinn því verið duglegur í ræktinni og boðið er upp á heilnæmt fæði á settinu.
Baltasar leikur hjartalækni í þrusugóðu formi og hefur leikstjórinn því verið duglegur í ræktinni og boðið er upp á heilnæmt fæði á settinu. Vísir/AntonBrink

Ég var oft spurður að þessu þegar ég var að byrja en ég var algjörlega á móti því. Ég lék reyndar aukahlutverk í 101 en var reyndar mjög óánægður með sjálfan mig í því hlutverki. Ég var ekkert að fíla þetta og ætlaði aldrei að gera þetta aftur,“ segir leikstjórinn Baltasar Kormákur hlæjandi á tökustað nýjasta leikstjórnarverkefnis síns, kvikmyndarinnar Eiðsins.

Aðalhandritshöfundur myndarinnar er Ólafur Egilsson og fer Baltasar með aðalhlutverk í myndinni en talsvert langt er síðan honum hefur sést bregða fyrir á kvikmyndatjaldinu.

Réttasta kastið í hlutverkið
En var það þá eitthvað sérstakt við þetta hlutverk sem kveikti löngunina til þess að bregða sér beggja vegna tökuvélanna? „Óli Egils skrifaði fyrstu drögin að þessu og svo fórum við að vinna í þessu saman og þá fór mig að langa til þess að gera þetta. Það var að hluta til vegna þess að mér fannst ég vera réttasta kastið í þetta,“ útskýrir Baltasar og bætir við að það hafi hann ekki upplifað áður og ákveðið að slá til.
Baltasar leikur reykvískan lækni og fjölskylduföður sem þarf að taka afdrifaríkar ákvarðanir þegar dóttir hans byrjar með glæpamanni. Með hlutverk dótturinnar fer Hera Hilmarsdóttir og Gísli Örn Garðarsson fer með hlutverk hins óheppilega kærasta.

Baltasar lýsir lækninum sem manni sem gengur vel í lífinu og býr yfir ákveðnum persónutöfrum. „Hann er líka nógu klikkaður til þess að fara fram af ákveðinni brún í lífinu og það er kannski eitthvað sem er til líka í mér,“ segir hann sposkur á svip og bætir við að karakterinn sé blóðheitur og þann eiginleika eigi þeir sameiginlegan. „Ég held að allir sem þekkja mig viti að ég er blóðheitur maður, þó ég reyni auðvitað að beita því sem minnst í vinnunni,“ segir hann og hlær.

Að standa beggja vegna tökuvélarinnar er áskorun sem Baltasar segir bæði spennandi og skemmtilega. „Það hægir kannski örlítið á mér af því að ég þarf að skoða svolítið það sem ég er að gera og það sem aðrir leikarar eru að gera,“ segir hann. „Ég held samt að ég sé ekkert síður fókuseraður á hina leikarana. Svo þarf ég að fara í mónitorinn, loka mig af og skoða það sem ég er að gera. Ég er bara að nostra við það og finnst það rosalega skemmtilegt.“

Vísir/AntonBrink

Á fullu í ræktinni
„Karakterinn sem ég er að leika er svona gæi sem er að fara í Járnkarlinn. Hjartalæknir, og þeir eru kannski margir hverjir að vinna gegn þyngdaraflinu og að reyna að halda sér í geðveiku formi orðnir fimmtugir. Þetta er ekkert óalgengt fyrirbæri,“ segir hann hlæjandi og bætir við að hann tengi við það að taka hlutina alla leið. „Til þess að verða trúverðugur í hlutverkinu þurfti ég náttúrulega að koma mér í form. Ég er búinn að hrista af mér tíu kíló og er kominn í alveg svakalegt form,“ segir Baltasar og brosir. „Ég myndi gera þær kröfur ef annar leikari væri að leika þetta hlutverk og það er enginn afsláttur gefinn svo ég var öll jólin nema á aðfangadag í gymminu.“

Á settinu er snæddur heilsumatur sem Baltasar segir talsvert nýmæli þar sem oftar en ekki sé boðið upp á súkkulaði og kex á setti en sökum hlutverksins þarf hann að vera á ákveðnu mataræði. „Fólk er byrjað að mæta hálftíma fyrr á sett, sem gerist aldrei, af því það er svo góður chia-grautur hérna á morgnana.“

Auk þess eru dagarnir á settinu tíu tíma langir í stað tólf tíma daga sem tíðkast hafa og segir Baltasar það gefast vel.

Hvar eru mörkin?
Myndinni hefur Baltasar lýst í viðtölum sem raunverulegri útgáfu af Taken og segir sjálfsagt flesta þekkja sögur sem líkjast á einhvern hátt söguþræðinum í myndinni þar sem örvæntingarástand skapast innan fjölskyldunnar. „Svo er þessi punktur, hvað venjulegur maður sem er að reyna að bjarga dóttur sinni gengur langt. Hvar eru mörkin og hvenær er hann farinn yfir þau? Hvað getur þú haft mikil áhrif? Þetta verður svona grátt svæði siðferðislega sem mér finnst rosalega áhugavert, hvernig þetta hefur áhrif á fjölskylduna. Þetta verður hrikalega spennandi þegar líður á myndina.“

Baltasar er oft sagður með mörg járn í eldinum og það er ekki ofsögum sagt. Nýjasta verkefni hans, þáttaserían Ófærð, er nú í sýningu og kvikmyndin Everest kom út í september á síðasta ári. Á döfinni eru fleiri verkefni og er hann meðal annars nýbúinn að fá í hendurnar handritið að víkingamyndinni sem hefur verið í bígerð í einhvern tíma. „Þetta er ótrúlega spennandi verkefni og þess vegna ákvað ég að gera þetta. Ég er með stór verkefni úti sem við erum að fara að gera þannig að annaðhvort þurfti ég að gera þetta núna eða eftir nokkur ár. Þetta var svona smá hrökkva eða stökkva.“ 

Úr stökkinu varð og hefur alheimssölurétturinn á Eiðnum þegar verið keyptur en stefnt er að því að myndin komi í bíóhús næstkomandi haust.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira