Innlent

Foreldrafundir í Melaskóla vegna skólastjóradeilunnar

Bjarki Ármannsson skrifar
Foreldrar barna í Melaskóla funduðu í kvöld með bekkjarfulltrúum allra bekkja um stöðuna sem upp er komin í skólanum.
Foreldrar barna í Melaskóla funduðu í kvöld með bekkjarfulltrúum allra bekkja um stöðuna sem upp er komin í skólanum. Vísir/Vilhelm
Foreldrar barna í Melaskóla funduðu í kvöld með bekkjarfulltrúum allra bekkja um stöðuna sem upp er komin í skólanum. Markmið fundarins var að kynna fyrir foreldrum ályktun sem bekkjafulltrúarnir hafa samþykkt og gengur út á að ekki verði við það búið að Dagný Annasdóttir skólastjóri komi aftur til starfa þann 1. apríl.

Þrjátíu kennarar við skólann hafa skrifað bréf til Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar þar sem fram kemur að ef Dagný muni halda áfram sem skólastjóri, eftir leyfi sem hún er í og líkur þann 31. mars, þá muni þeir segja upp. Um er að ræða ríflega þrjá fjórðu kennara skólans og þá sem eru með hvað lengstan starfsaldur.

Málið er sagt flókið og viðkvæmt og ekki hafa fengist upplýsingar um það nákvæmlega um hvað deila Dagnýjar og kennaranna snýst.

Sjá einnig: Skólastjóraskipti í Melaskóla eftir verulegar væringar

Samkvæmt heimildum Vísis fengu foreldrar ekki að vita mikið meira á fundinum í kvöld en að starfsfólk skólans hafi ítrekað kvartað yfir samskiptaörðugleikum og trúnaðarbresti. Dagný tók við stöðu skólastjóra Melaskóla árið 2013 og fyrstu kvartanir yfir störfum hennar bárust strax á fyrsta ári hennar í starfi.

Bekkjarfulltrúar munu áfram funda með foreldrum út vikuna og stendur til að reyna að safna sem flestum undirskriftum foreldra við ályktunina til þess að reyna að þrýsta enn frekar á skóla- og frístundaráð til að leysa úr stöðunni sem fyrst.


Tengdar fréttir

Kennarauppreisn í Melaskóla

30 kennarar hóta að hætta ef Dagný Annasdóttir tekur aftur við sem skólastjóri Melaskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×