Handbolti

Níu nýir menn með Króötum frá því þegar þeir unnu Ísland síðast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivano Balic var með króatíska liðinu fyrir fjórum árum en tókst ekki að skora.
Ivano Balic var með króatíska liðinu fyrir fjórum árum en tókst ekki að skora. Vísir/EPA
Króatía og Ísland mætast í dag í lokaumferð B-riðils Evrópumótsins í handbolta í Póllandi en undir í leiknum er sæti í milliriðli keppninnar.

Lið Íslands og Króatíu mættust síðast á stórmóti á Evrópumótinu í Serbíu árið 2012 og unnu Króatar þá 31-29 þökk sé frábærum lokakafla þar sem króatíska liðið skoraði sjö mörk á móti þremur síðustu tíu mínúturnar í leiknum.

Króatar eru að fara í gegnum viss kynslóðarskipti og aðeins sjö af sextán leikmönnum liðsins voru með í þessum leik fyrir fjórum árum. Margir lykilmanna liðsins eru þó á sínum stað.

Þessir sjö sem voru með í sigrinum á Íslandi í Vrsac 16. janúar 2012 og eru einnig með núna eru menn í stórum hlutverkum.

Fjórir þeirra skoruðu í leiknum og fimmti var í stóru hlutverki í markinu. Þessir fjórir skoruðu 18 af 31 marki liðsins eða 58 prósent markanna.

Manuel Strlek (8 mörk), Ivan Cupic (5 mörk), Domagoj Duvnjak (4 mörk) og Marko Kopljar (1 mark) skoruðu allir í sigrinum á Íslandi.

Stórskyttan Blazenko Lackovic var með 5 mörk og 6 stoðsendingar í þessum leik fyrir fjórum árum en hann er ekki í króatíska liðinu í dag.

Það vantar líka  menn eins og Ivano Balic, Igor Vori og Denis Buntic sem eru allt menn sem hafa reynst íslenska liðinu erfiðir í leikjum þjóðanna á stórmótum í gegnum tíðina.

Níu leikmenn íslenska liðsins í dag voru aftur á móti með í þessum leik fyrir fjórum árum en þeir hinir sömu voru allt í öllu í leik liðsins og skoruðu 27 af 29 mörkum Íslands í leiknum eða 93 prósent markanna.

Markaskorarar Íslands í síðasta leik við Króatíu á stórmóti:

Guðjón Valur Sigurðsson 8 mörk

Arnór Atlason 5 mörk

Aron Pálmarsson 5 mörk

Alexander Petersson 4 mörk (Var valinn bestur í íslenska liðinu)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 3 mörk

Vignir Svavarsson 2 mörk

Þórir Ólafsson 2 mörk (ekki með núna)

Björgvin Páll Gústavsson var allan tímann í markinu fyrir utan 1 víti

Markaskorarar Króatíu í síðasta leik á móti Íslandi á stórmóti:

Manuel Strlek 8 mörk

Blazenko Lackovi 5 mörk (ekki með í kvöld)

Ivan Cupic 5 mörk

Denis Buntic 5 mörk (ekki með í kvöld)

Domagoj Duvnjak 4 mörk

Igor Vori 3 mörk (ekki með í kvöld)

Marko Kopljar 1 mark


Tengdar fréttir

Ísland hefur aldrei unnið Króatíu á stórmóti

Íslenska handboltalandsliðið þarf að endurskrifa söguna ef liðið ætlar að fá tvö stig út úr leiknum á móti Króatíu í kvöld í lokaumferð B-riðils Evrópumótsins í handbolta í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×