Innlent

Flestir Vestmannaeyingar vilja tafarlaust láta smíða nýja ferju

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Þessi mikli stuðningur kom mér á óvart,“ segir bæjarstjórinn Elliði Vignisson.
„Þessi mikli stuðningur kom mér á óvart,“ segir bæjarstjórinn Elliði Vignisson. Vísir/Valli
Meirihluti íbúa Vestmannaeyja er sammála afstöðu bæjarstjórnarinnar um að ráðast eigi tafarlaust í smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og nýta smíðatíma hennar til að gera breytingar á Landeyjahöfn. Af þeim sem tóku þátt voru áttatíu og sex prósent sammála og fjórtán prósent ósammála. Elliði Vignisson bæjarstjóri er vonum sáttur með niðurstöðuna.

„Þessi mikli stuðningur kom mér á óvart. Ég var náttúrulega að vona að bæjarstjórn væri ekki ein í þessu máli og að meirihluti bæjarbúa myndu fylgja henni, en að 86 prósent aðspurðra tækju undir með bæjarstjórn um þörf þess að fá nýtt skip tafarlaust og að nýta símatíma hennar til að breyta höfninni kom mér á óvart,“ segir Elliði.

„Nú hljóta kjörnir fulltrúar að hlusta eftir þessari eindregnu skoðun heimamanna og vinda sér tafarlaust í það að samþykkja nýsmíði á Vestmannaeyjarferju. Við höfum beðið síðan 2008 og bíðum enn og meðan ekkert er gert þá gerist ekkert. Síðan þarf að nota smíðatíma skipsins í að laga Landeyjarhöfn,“ segir hann um næstu skref í málinu.

Könnunin var framkvæmd af Gallup á tímabilinu 13. nóvember 2015 til 5. janúar 2016. Könnunin var gerð fyrir bæjarstjórn Vestmannaeyja og var um að ræða síma- og netkönnun. Þátttakendur í könnuninni voru 133.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×