Erlent

Gríðarlegt ofbeldi gegn borgurum í Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmargir borgarar hafa fallið í sprengjuárásum í Írak.
Fjölmargir borgarar hafa fallið í sprengjuárásum í Írak. Vísir/EPA
Sameinuðu þjóðirnar segja ofbeldi gegn borgurum í Írak vera gríðarlega mikið. Samkvæmt nýrri skýrslu féllu minnst 18 þúsund borgarar frá 1. janúar 2014 til 31. október 2015. Þá hafa minnst 3,2 milljónir manna þurft að flýja heimili sín vegna átaka.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu SÞ, en þar eru nánast allar stríðandi fylkingar sakaðar um að hafa brotið á réttinum almennra borgara. Íraski herinn hefur verið sakaður um brot, vopnaðar sveitir hliðhollar stjórnvöldum sem og Kúrdar einnig.

Þar að auki saka SÞ hryðjuverkasamtökin Íslamskt ríki um kerfisbundið ofbeldi gegn borgurum. Samtökin eru talin halda um 3.500 þrælum í landinu.

Sjá einnig: ISIS-liðar með um 3.500 þræla í Írak

Samkvæmt skýrslunni féllu 18,802 borgarar á áðurnefndu tímabili og 36,245 særðust. Þó er tekið fram að þessar tölur gætu í raun verið mun hærri. Sérstaklega gætu tölurnar úr Anbar héraði, sem er undir stjórn ISIS, ekki gefið rétta mynd af stöðunni.

Þau voðaverk sem SÞ hafa skráð niður eru af ýmsum toga. Til dæmis hefur mönnum verið kastað af húsþökum eftir að þeir hafa verið sakaðir um samkynhneigð. Vígamenn ISIS eru sagðir hafa myrt 19 konur í Mosul, sem neituðu að sænga hjá vígamönnum. Þá voru kvenkynsþrælar veittar sem verðlaun í keppni vígamanna um hver gæti lagt Kóraninn best á minnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×