Innlent

Ísland í dag: Segir Atla aldrei hafa sýnt iðrun

Bjarki Ármannsson skrifar

Um fátt hefur verið rætt í dag meira en mál Atla Helgasonar, sem veitt hefur verið uppreist æru og sem sækist eftir málflutningsréttindum sínum á ný. Atli hlaut sextán ára fangelsisdóm árið 2001 fyrir morðið á Einari Erni Birgissyni.

Ísland í dag ræddi við Birgi Örn Birgisson, föður Einars, í beinni útsendingu í kvöld. Birgir segir það hafa komið mjög á óvart í gær þegar sonur hans hafði samband rétt fyrir Kastljós á RÚV í gær til að láta vita að í þættinum yrði greint frá því að Atli hefði fengið uppreist æru.

„Þetta er náttúrulega hlutur sem við áttum ekkert von á, þetta líkist því nánast þegar leitin að Einari stóð yfir og allir miðlar voru að hafa samband við okkur,“ segir Birgir.

Hann segir fjölskyldu Einars aldrei hafa heyrt frá Atla frá því að hann hlaut dóm.

Sjá einnig: Engin krafa um iðrun þegar menn fá uppreist æru

Morðið á Einari Erni vakti mikla athygli og óhug á sínum tíma.

„Mér fyndist ekkert óeðlilegt, fyrst hann er að reyna að vinna mannorð sitt til baka, að hann reyndi einhvern veginn að hafa samband við okkur,“ segir Birgir. „Ég myndi vera alveg tilbúinn að hlusta á hvað hann hefði fram að færa. Það væri raunar mjög forvitnilegt.“

Hann ítrekar að reiði og heift ríki ekki innan fjölskyldunnar þó fréttir gærdagsins hafi ýft upp margt.

„Einar var mjög hæfileikaríkur drengur og reglusamur. Hann var mjög vinsæll, átti stóran vinahóp. Hann var svolítið sérstakur, þó hann hafi verið sonur minn þá var hann spes.“

Sjá einnig: Morðið á Einari eitt umtalaðasta sakamál síðustu ára

Birgir segir það skipta máli að Atli hafi ekki komið hreint fram við byrjun málsins. Þegar Einars var fyrst saknað tók Atli meðal annars þátt í leit að honum.

„Já, ég verð að segja að mér finnst þessi blekkingarleikur af hálfu Atla, hvernig hann getur leikið tveimur skjöldum ... siðferði hans og dómgreind virðast alveg út úr kortinu.“
Viðtalið í Íslandi í dag í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Morðið á Einari eitt umtalaðasta sakamál síðari ára

Það hefur vakið mikla athygli að lögfræðingurinn Atli Helgason skuli hafa fengið uppreist æru en hann var árið 2001 dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að verða Einari Erni Birgissyni að bana með hamri þann 8. nóvember árið 2000.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira