Handbolti

Arnór: Mest svekkjandi að missa af Ólympíuleikunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór svekktur með strákunum eftir leik.
Arnór svekktur með strákunum eftir leik. Vísir/Valli
Ísland mátti þola grátlegt tap fyrir Króatíu á EM í handbolta í kvöld og var Arnór Atlason niðurlútur eftir tapið, enda Ísland úr leik og draumurinn um Ólympíuleikana í Ríó úr sögunni.

„Við byrjuðum vel á þessu móti og þó svo að leikirnir hafi verið mismunandi fannst mér allir mæta til leiks vel undirbúnir,“ sagði Arnór eftir leikinn.

„Við byrjuðum þokkalega gegn Noregi og fengum tvö stig úr þeim leik. Þá vorum við komnir í draumastöðu. En svo veit ég ekki hvað gerist.“

Hann segir að það hafi allir séð hvað gerðist í leiknum gegn Hvíta-Rússlandi og að það hafi verið erfitt að þurfa að spila gegn Króatíu í leik þar sem allt var í húfi.

„Það er augljóst að Króatía er með miklu betra landslið en við í dag,“ segir Arnór sem játar því að íslenska landsliðið geti miklu betur en liðið sýndi í dag.

„Að sjálfsögðu. Það vita allir og við vitum það best sjálfir. Menn eru rosalega svekktir enda risastórt tap. Það sem er samt mest svekkjandi er að við missum núna af Ólympíuleikunum. Við höfum margir horft lengi til þess móts.“

Hann segir ótímabært að meta framtíð landsliðsins út frá þessu móti.

„Ég veit ekki hver framtíðin er eða staðan á mönnum. Nú voru menn búnir að hugsa um þetta mót í langan tíma, frá því að HM lauk í fyrra, og er langt síðan að við vorum allir í svo góðu standi og við erum núna.“

„Þetta er agalegt að við höfum ekki gefið okkur betra tækifæri til að fara áfram í milliriðil en við gerðum í kvöld.“

Hann segist ekkert hafa velt fyrir sér framtíð sinni í landsliðinu. „Ég reikna með því að halda áfram mínu striki. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri og margir af mínum bestu vinum spila hér. Ég ætla ekki að hætta strax.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×