Erlent

Norðmenn senda flóttamenn aftur til Rússlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá landamærunum í fyrra.
Frá landamærunum í fyrra. Vísir/EPA

Norðmenn sendu í dag þrettán flóttamenn aftur til Rússlands. Til stendur að senda 5.500 manns yfir landamærin en yfirvöld í Noregi tilkynnti fyrir áramót að allir flóttamenn sem kæmu frá löndum sem talin væru örugg yrðu sendir til baka. Í fyrstu átti að senda flóttamennina yfir landamærin á hjólum, þar sem reglur bönnuðu óskráðu fólki að notast við bíla til að fara yfir landamærin.

Fólkinu var einnig bannað að fara gangandi. Þúsundir flótta- og farandfólks fóru á hjólum yfir landamærin til Noregs í fyrra. Með því komust þau í gegnum galla á lögunum. Flestir þeirra voru að flýja átök í Sýrlandi.

Mannréttindasamtök hafa samkvæmt BBC fordæmt brottvísanirnar en að degi til er hitastigið á svæðinu um -30 gráður. Rússar samþykktu nýverið að leyfilegt væri að flytja fólkið með rútum. Þeir þrettán sem voru sendir til baka í dag voru allir með rússnesk vegabréf eða landvistarleyfi þar í landi.

Fólkinu hefur verið komið fyrir í skýli í bænum Kirkenes, nærri landamærum Noregs og Rússlands. Þaðan hafa hins vegar einhverjir flúið af ótta við að vera send aftur til Rússlands. Þá hafa einnig borist fréttir af hungurverkfalli í skýlinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira