Fótbolti

Lögreglumaður vildi handtaka De Jong fyrir tæklinguna í úrslitum HM 2010

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Eins stærstu mistök enska dómarans Howards Webbs á ferlinum voru að reka ekki Nigel De Jong, leikmann Hollands, út af á 28. mínútu í úrslitaleik HM 2010.

De Jong þrumaði Xabi Alonso, leikmann Spánar, niður með sannkölluðu karatesparki en slapp með gult spjald. Til allrar hamingju fyrir Webb hafði þetta ekki áhrif á úrslitin þar sem Andrés Iniesta tryggði Spáni sigurinn í framlenginu.

„Ég hélt ég hefði dæmt rétt þegar ég var úti á vellinum en síðan fórum við inn í klefa og þá tók annar aðstoðardómarinn minn upp símann sinn og missti andlitið,“ sagði Webb er hann rifjaði upp atvikið á BT Sport. Daily Mail greinir frá.

Ekki rautt heldur handtaka
„Ég spurði hvað væri að og hann sagði mér að De Jong átti að fá rautt. Yfirmaðurinn í höfuðstöðvum dómaranna sagði okkur að De Jong átti að fá rautt spjald.“

Webb var lögregluvarðstjóri á þessum tíma og hann var líka með skilaboð á sínum síma frá kollega sínum í löggunni. Hann vildi fá meira en rautt á hollenska miðjumanninn.

„Ég sagði: „Þú ert að grínast,“ og leit á símann minn. Félagi minn í lögreglunni hafði sent mér skilaboð og sagði: „Howard, þetta er ekki rautt spjald heldur á að handtaka hann fyrir þetta!“

Fjórtán gul spjöld
Leikurinn var mjög grófur og endaði Webb á að gefa fjórtán gul spjöld. Johnny Heitinga var rekinn af velli í framlengingunni.

Í spilaranum hér að ofan má sjá þessa svakalegu tæklingu Nigel De Jogn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira