Innlent

Hjálpræðisherinn vill lóð við hlið mosku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Herkastalinn var byggður árið 1916 og verður því hundrað ára á næsta ári.
Herkastalinn var byggður árið 1916 og verður því hundrað ára á næsta ári.

Hjálpræðisherinn hefur sótt um lóð í Sogamýri á milli hjúkrunarheimilisins Markarinnar og lóðarinnar þar sem moska Félags múslima á að rísa. Morgunblaðið greinir frá þessu og ræðir við Gunnar Eide, deildarstjóra Hjálpræðishersins á Íslandi, sem vonast eftir því að Reykjavíkurborg svari umsókninni í mánuðinum. Gunnar segir að til standi að reisa eitt þúsund fermetra hús undir starfsemina.

Sem kunnugt er hefur Herkastalinn við Kirkjustræti verið auglýstur til sölu. Þar hefur Hjálpræðisherinn rekið gistiheimili um árabil en að sögn Gunnars stendur ekki til að reka gistiheimili í Sogamýrinni. Um sé að ræða safnaðarmiðstöð sem henti einnig til safnaðarstarfs.

„Okkur langar að hafa þarna fjölskyldumiðstöð og eins að geta tekið á móti innflytjendum,“ segir Gunnar í Morgunblaðinu.

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands eru 48 skráðir í trúfélagið. Er það í 31. sæti af 47 skráðum trúfélögum hér á landi sé litið til fjölda skráðra meðlima. Gunnar telur þó að virkir félagar hjá Hjálpræðishernum séu á milli 100 og 200. Herinn stóð fyrir jólakvöldverði á aðfangadag í Ráðhúsi Reykjavíkur en á þriðja hundrað manns þáðu boð hersins.

Moskan sem múslimar hyggjast reisa í Sogamýrinni er áætluð að verði 800 fermetrar að stærð. 486 eru skráðir í Félag múslima á Íslandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira