Handbolti

Kvennalið Selfoss fær til sín landsliðskonu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinunn Hansdóttir (númer 2) þakkar fyrir landsleik á móti Svartfjallalandi í Laugardalshöllinni.
Steinunn Hansdóttir (númer 2) þakkar fyrir landsleik á móti Svartfjallalandi í Laugardalshöllinni. Vísir/Ernir

Lið Selfoss í Olís-deild kvenna í handbolta fékk góðan liðstyrk í dag en landsliðskonan Steinunn Hansdóttir er komin til liðsins frá danska liðinu SönderjyskE.

Steinunn var á sínu fyrsta tímabili með SönderjyskE en lék áður með Skandeborg. Sunnlenska segir frá félagsskiptunum í kvöld og er með viðtal við nýjast leikmann Selfossliðsins.

„Ég var ekkert að fá mikið að spila í SønderjyskE þannig að ég tók þessa ákvörðun og fæ kannski að spila aðeins meira hérna á Selfossi. Þetta er í fyrsta sinn sem ég spila fyrir íslenskt lið, ég hef ekkert fylgst með íslensku deildinni en ég er bara mjög spennt fyrir að spila á Íslandi og sjá hvernig deildin er,“ sagði Steinunn í samtali við sunnlenska.is.

Steinunn er 21 árs gömul og spilar í vinstra horni. Hún hefur verið í kringum landsliðið undanfarið og á að baki 19 mörk í 13 landsleikjum.

Steinunn er ættuð frá selfossi eins og kemur fram í frétt um félagsskipti hennar á  sunnlenska.is en hefur búið í Danmörku frá fjögurra ára aldri.

Selfossliðið er í 7. sæti Olís-deildarinnar með átta sigra í þrettán leikjum en markahæsti leikmaður deildarinnar er hin öfluga Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sem skoraði 118 mörk í þessum 13 leikjum eða meira en tíu mörk í leik. Hrafnhildur Hanna er núna ekki lengur eina landsliðskonan í Selfossliðinu.

Selfoss er á heimavelli í fyrsta leik sínum á nýju ári en á laugardaginn kemur taka Steinunn og nýju liðsfélagar hennar á móti Haukum í Vallaskóla.
Fleiri fréttir

Sjá meira