Innlent

Tortímum okkur ekki sjálf fyrir sleikipinna

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hef gaman af eldinum og er alltaf eitthvað að stússa í kringum hann, segir Tryggvi Hansen.
Hef gaman af eldinum og er alltaf eitthvað að stússa í kringum hann, segir Tryggvi Hansen. Vísir/Vilhelm
„Ég sakna þess að hafa ekki gert torfhús í sumar,“ segir Tryggvi Hansen sem frá því snemma í fyrrasumar hefur búið í tjaldi í skóglendi í Reykjavík.

Veturinn hefur verið býsna harður á köflum, með kuldum og illviðrum. Tryggvi segir það hafa verið spennandi. „Maður veit aldrei hvernig staðan er þegar maður vaknar. Heimurinn er alltaf nýr þegar veðrið breytist,“ segir hann.

Tryggvi er vel búinn í tjaldi sínu enda sækir kuldinn stundum grimmt að. Fréttablaðið/Vilhelm
Um þessar mundir er Tryggvi að reyna að ná tökum á gamalli Sólóeldavél sem hann fékk gefins og hægt er að hita með viði. „Það er bakaraofn í henni og ég stefni að því að reyna að baka í ofninum en hef ekki náð honum nándar nærri heitum,“ segir Tryggvi sem samhliða er að gera sér kofa þar sem hann getur haft meiri kyndingu en í tjaldinu.

Stund milli stríða í skóginum. Fréttablaðð/Vilhelm
Tryggvi segist ekkert endilega hafa ætlað að vera í búðunum í vetur og eftir á að hyggja hefði hann betur gert sér torfhús. „Þegar ég er stundum í mínus tíu gráðum hugsa ég að nú væri lúxus að vera ofan í jörðinni í fjórum gráðum eins og músin og ánamaðkurinn sem hafa það fínt,“ segir Tryggvi sem kveðst þó alls ekki vera að guggna á dvölinni í skóginum.

„Nei, ég er í fangbrögðum við náttúruna. Náttúran vill að við glímum við hana – annars verðum við hryggleysingjar,“ svarar Tryggvi sem kveðst telja Íslendinga þurfa nýjan stjórnmálaflokk og ný trúarbrögð.

Með týru í rökkrinu að bjástra við Sólóeldavélina. Fréttablaðið/Vilhelm
„Trúarbrögðin heita náttúruunnandi og stjórnmálaaflið heitir náttúrustefna. Og ég auglýsi eftir fólki sem vill koma með mér í þetta. Mér finnst það geta bjargað Íslandi frá mörgum stórum vanda ef við færum meira þá leiðina,“ segir Tryggvi. „Við erum indíánar frekar en stórþjóð. Við eigum ekki að tortíma okkur sjálf fyrir glingur og sleikipinna.“

Tryggvi telur sig vera afkomanda og merkisbera náttúrufólks sem hann segir hafa búið hér tugþúsundum saman.


Tengdar fréttir

Afkomandi huldufólks býr í skógarrjóðri við Reykjavík

Náttúruunnandinn Tryggvi Gunnar Hansen hefur frá því í maí hafst við í tjaldbúð í skóglendi í jaðri Reykjavíkur. Tryggvi segir sig afkomanda og merkisbera fólks sem hafi verið hér fyrir "svikalandnám víkinga“ og vill að Íslendingar snúi í torfkofana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×