Erlent

Hafa borið kennsl á „nýja Jihadi John“

Atli Ísleifsson skrifar
Dhar kemur frá Walthamstow í austurhluta London.
Dhar kemur frá Walthamstow í austurhluta London. Mynd/Twitter
Maður sem kemur fram í nýjasta áróðursmyndbandi ISIS er talinn vera Bretinn Siddhartha Dhar.

BBC greinir frá þessu. Dhar kemur fram í nýju myndbandi þar sem fimm menn sem sagðir voru njósna fyrir Breta eru teknir á lífi.

„Fjölmargir telja að um hann sé að ræða,“ segir heimildarmaður BBC þó að bresk yfirvöld eigi enn eftir að staðfesta þetta.

Dhar kemur frá Walthamstow í austurhluta London. Hann var hindúatrúar en snerist í seinni tíð til íslamstrúar og gengur einnig undir nafninu Abu Rumaysah.

Í frétt BBC kemur fram að hann hafi verið handtekinn árið 2014, en sleppt gegn tryggingu og flúið til Sýrlands.

Systir Dhar segir í samtali við BBC að þegar hún hafi fyrst heyrt rödd mannsins í myndbandinu hafi hún óttast að um bróður hennar væri að ræða, þó að hún segist ekki fullviss.

Í myndbandinu, sem er um tíu mínútur að lengd, birtist meðal annars grímuklæddur maður, vopnaður byssu og hæðist að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.

Bretinn sem hafði verið áberandi í aftökumyndböndum ISIS, Mohammed Emwasi, sem einnig gekk undir nafninu Jihadi John, féll í loftárás Bandaríkjahers sem gerð var í sýrlenska bænum Raqqa, höfuðvígi ISIS, í nóvember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×