Erlent

Hafa borið kennsl á „nýja Jihadi John“

Atli Ísleifsson skrifar
Dhar kemur frá Walthamstow í austurhluta London.
Dhar kemur frá Walthamstow í austurhluta London. Mynd/Twitter

Maður sem kemur fram í nýjasta áróðursmyndbandi ISIS er talinn vera Bretinn Siddhartha Dhar.

BBC greinir frá þessu. Dhar kemur fram í nýju myndbandi þar sem fimm menn sem sagðir voru njósna fyrir Breta eru teknir á lífi.

„Fjölmargir telja að um hann sé að ræða,“ segir heimildarmaður BBC þó að bresk yfirvöld eigi enn eftir að staðfesta þetta.

Dhar kemur frá Walthamstow í austurhluta London. Hann var hindúatrúar en snerist í seinni tíð til íslamstrúar og gengur einnig undir nafninu Abu Rumaysah.

Í frétt BBC kemur fram að hann hafi verið handtekinn árið 2014, en sleppt gegn tryggingu og flúið til Sýrlands.

Systir Dhar segir í samtali við BBC að þegar hún hafi fyrst heyrt rödd mannsins í myndbandinu hafi hún óttast að um bróður hennar væri að ræða, þó að hún segist ekki fullviss.

Í myndbandinu, sem er um tíu mínútur að lengd, birtist meðal annars grímuklæddur maður, vopnaður byssu og hæðist að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.

Bretinn sem hafði verið áberandi í aftökumyndböndum ISIS, Mohammed Emwasi, sem einnig gekk undir nafninu Jihadi John, féll í loftárás Bandaríkjahers sem gerð var í sýrlenska bænum Raqqa, höfuðvígi ISIS, í nóvember.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira