Körfubolti

Skvettubræður skoruðu 60 stig og Green náði þriðju þrennunni í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stephen Curry sækir að körfu Charlotte í nótt.
Stephen Curry sækir að körfu Charlotte í nótt. vísir/getty
Golden State Warriors heldur áfram að drottna yfir NBA-deildinni í körfubolta en meistararnir unnu Charlotte Hornets á heimavelli sínum í nótt, 111-101.

Golden State er nú búið að vinna alla 17 heimaleiki sína á leiktíðinni og síðustu 35 heimaleiki ef seinasta leiktíð er tekin með. Golden State er í heildina búið að vinna 32 leiki á þessari leiktíð og tapa aðeins tveimur.

Draymond Green varð aðeins annar leikmaður Golden State í sögunni í nótt sem nær þrennu þrisvar sinnum í röð, en kraftframherjinn magnaði skoraði 13 stig, tók 15 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Skvettubræður; Stephen Curry og Klay Thompson, skoruðu báðir 30 stig og voru samtals 11 af 21 fyrir utan þriggja stiga línuna.

Cleveland Cavaliers er einnig mjög sterkt á heimavelli en það vann Toronto Raptors í nótt, 122-100 og er í heildina búið að vinna 15 heimaleiki sína af 16 á tímabilinu. Það var mikið liðsframlag hjá Cleveland í nótt þar sem allt byrjunarliðið skoraði yfir 10 stig og þrír af fimm skoruðu yfir 20 stig.

Kyrie Irving var stigahæstur með 25 stig auk þess sem hann gaf átta stoðsendingar og tók sex fráköst en LeBron James skoraði 20 stig og gaf sjö stoðsendingar.

Sacramento Kings gerði sér svo lítið fyrir og vann Oklahoma City Thunder á útivelli, 116-104, þar sem DeMarcus Cousins fór á kostum og skoraði 33 stig og tók 19 fráköst.

OKC var án Kevins Durants en Sergi Ibaka var stigahæstur heimamanna með 25 stig. Russell Westbrook skoraði 17 stig, gaf 15 stoðsendingar og tók átta fráköst.

Úrslit næturinnar:

Cleveland Cavaliers - Toronto Raptors 122-100

Philadelphia 76ers - Minnesota Timberwolves 109-99

Brooklyn Nets - Boston Celtics 94-103

Detroit Pistons - Orlando Magic 115-89

Miami Heat - Indiana PAcers 103-100

Milwaukee Bucks - San Antonio Spurs 98-123

OKC Thunder - Sacramento Kings 104-116

Utah Jazz - Houston Rockets 91-93

Portland Trail Blazers - Memphis Grizzlies 78-91

Golden State Warriors - Charlotte Hornets 111-101

Staðan í deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×