Innlent

Áfrýjun vegna farbanns vísað frá

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn segir einbreiðar brýr vera sér framandi, en þessi er yfir Glerá.
Maðurinn segir einbreiðar brýr vera sér framandi, en þessi er yfir Glerá. Vísir/Pjetur
Kínverskur ferðamaður sem kom að banaslysi við Hólaá um jólin má ekki fara úr landi. Hæstiréttur vísaði áfrýjun mannsins vegna farbanns Héraðsdóms Suðurlands frá í dag. Maðurinn er grunaður um að hafa valdið bana annars ökumanns með gáleysi á brúnni yfir Hólá á Öræfum þann 26. desember. Hann hefur verið úrskurðaður í farbann til 29. desember og svo til 1. mars.

Málinu var vísað frá þar sem verjandinn virðist hafa gleymt að tiltaka af hverju hann vildi kæra - hann einfaldlega kærði. Ekki var bætt úr því í skriflegri kæru til Hæstaréttar.

Maðurinn sem lét lífið var fæddur árið 1969 og var á ferð með eiginkonu sinni og tveimur börnum þegar slysið varð.

Sjá einnig: Ferðamennirnir frá Japan og Kína

Í úrskurði héraðsdóms segir að maðurinn frá Kína eigi allt að sex ára fangelsisvist yfir höfði sér. Vitni segja hann hafa ekið á miklum hraða inn á brúnna og er það stutt af ljósmyndum. Þá benda gögn einnig til þess að hann hafi verið yfir hámarkshraða og á mun meiri hraða en hinn bíllinn þegar slysið varð.

Maðurinn sjálfur segist ekki vanur að keyra í snjó og hálku og að jafnvel séu einbreiðar brýr séu honum framandi. Þá segir hann að honum hafi ekki verið kynnt sérstaða íslenskra akstursaðstæðna þegar hann tók bíl á leigu.

Í úrskurðinum kemur einnig fram að mögulega verði manninum gert að sæta farbanni lengur en til fyrsta mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×