Innlent

Dæmi um að börn allt niður í tíu ára skaði sig viljandi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Stór hluti þeirra sem leita aðstoðar neyðarteymis barna og unglingageðdeildar Landspítala, BUGL, hafa stundað sjálfsskaðandi hegðun. Sérfræðingar þar segja sjálfskaða ört vaxandi vandamál, en dæmi eru um að börn allt niður í tíu ára hafi skaðað sig viljandi.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði sautján ára stúlka, Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir, frá sjálfskaðafíkn sem hún hefur glímt við frá þrettán ára aldri. Sagði hún að slíkt væri algengt meðal jafnaldra hennar, en að enga fræðslu sé að fá um sjálfskaðandi hegðun hér á landi.

Talið er að um tíu prósent unglinga á aldrinum 14-15 ára hafi skaðað sig viljandi en Ragna Kristmundsdóttir, sérfræðingur í geðhjúkrun á BUGL, segir sjálfskaða vera ört vaxandi vandamál hér á landi eins og á öðrum Vesturlöndum. 

„Þetta er talsvert falið vandamál og það eru ekki allir sem leita sér aðstoðar. Þessar tölur geta verið á reiki líka og það eru sveiflur í þessu en þetta hefur verið að aukast á síðustu árum," segir Ragna. 

Stór hluti þeirra barna sem leita aðstoðar neyðarteymis BUGL hafa skaðað sig viljandi en Ragna segir að þau glími öll við vanlíðan vegna til dæmis áfalla, þunglyndis eða kvíðaröskunar. 

„Stundum fáum við krakka til okkar sem eru bara nýbyrjuð að skaða sig og stundum einhverja sem hafa verið að skaða sig árum saman. Það er mjög misjafnt. Það er mun algengara að stelpur séu að þessu, og þá á unglingsaldri, um þrettán til átján ára," segir Ragna. 

Þó séu dæmi um að börn allt niður í tíu ára hafi skaðað sig viljandi.

„Það er samt afskaplega sjaldgæft. Algengasti aldurinn er í kringum fjórtán, fimmtán og sextán," segir Ragna.

Hún segir að langflestir hætti sjálfskaðandi hegðun ef þeir leiti sér viðeignadi hjálpar, og vill benda unglingum sem glíma við slíkt á að hægt sé að leita til fagaðila á heilsugæslum og í skólum. Opna þurfi umræðuna og uppræta fordóma um að sjálfskaðahegðun sé kall á athygli.

„Það er svo sannarlega ekki þannig, þetta er ekki athyglissýki. Þetta er raunverulegt vandamál," segir Ragna.


Tengdar fréttir

„Önnur hver stelpa sem ég þekki hefur prófað þetta“

Sautján ára stúlka, sem haldin hefur verið slæmri sjálfsskaðafíkn í fjögur ár, segir sjálfsskaða vera algengt og vaxandi vandamál meðal íslenskra ungmenna. Þrátt fyrir það séu fordómar í garð sjúkdómsins miklir og fræðslan engin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×