Fótbolti

Kristján Gauti farinn frá NEC | Persónulegar ástæður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Gauti Emilsson í leik með NEC á móti Ajax.
Kristján Gauti Emilsson í leik með NEC á móti Ajax. Vísir/Getty

Íslenski framherjinn Kristján Gauti Emilsson hefur náð samkomulagi við hollenska félagið NEC Nijmegen um að hann yfirgefið félagið strax.

Kristján Gauti hefur spilað með NEC Nijmegen síðan hann yfirgaf FH í byrjun ágúst 2014. Hann var ekki eini íslenski leikmaðurinn því landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson spilar einnig með hollenska liðinu.

Kristján Gauti vildi hætta hjá félaginu í október vegna persónulegra ástæðna og samkvæmt fréttum frá Hollandi þá er hann laus allra mála frá félaginu.

Kristján Gauti skoraði 2 mörk í 11 leikjum með NEC á síðasta tímabili þegar hann hjálpaði liðinu að komast upp í hollensku úrvalsdeildina.

Kristján hefur hinsvegar aðeins spilað þrjá leiki í hollensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og engan leik síðan í lok ágúst.

Kristján Gauti er alinn upp hjá FH en fór fyrst út í atvinnumennsku til Liverpool frá 2009 til 2012.

Kristján Gauti kom aftur heim í lok júlí 2012 og spilaði með FH-liðinu út tímabilið og svo eitt og hálft tímabil til viðbótar.  

Það má búast við því að íslensk félög sýni Kristjáni Gauta áhuga en hann var með 5 mörk og 1 stoðsendingu í 9 leikjum með FH í Pepsi-deildinni sumarið 2014.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira