Veiði

Breytt fyrirkomulag í Blöndu á komandi sumri

Karl Lúðvíksson skrifar
Vala Árnadóttir með flottann lax úr Blöndu
Vala Árnadóttir með flottann lax úr Blöndu Mynd: Lax-Á

Á vefnum hjá Lax-Á er kynnt breyting á núverandi veiðifyrirkomulagi í Blöndu sem tekur gildi á komandi sumri.

Það er óhætt að segja að þar með séu svo til allar stóru árnar, í það minnsta þær sjálfbæru, á landinu komnar í hóp veiðisvæða þar sem kvóti er á dagsveiðina, þ.e.a.s. á þeim laxi sem má drepa en það er skref sem veiðimenn, leigutakar og landeigendur telja nokkuð heilt yfir vera heillaskref. Þetta á líka eftir að draga að fleiri erlenda veiðimenn sem sækjast oft sérstaklega í árnar þar sem verndunarsjónarmið eru höfð í heiðri þó ekki nema að hluta eins og oft gengur og gerist t.d. með hóflegum kvóta.

Hvað Blöndu varðar þá var, eins og allir vita, gífurlega mikil veiði í ánni í sumar og mikið drepið af laxi. Lax-Á kynnti eftirfarandi breytingar á reglum um kvóta í ánni og þær eru sem segir eins og á heimasíðu Lax-Á:

"Veiðireglur í Blöndu verða með breyttum hætti frá og með árinu 2016. Blanda fóstrar ákaflega sterkan sjálfbæran stofn og við viljum tryggja að svo verði áfram. Sem hluta af veiðistjórnun munum við setja sanngjarnan og ríflegan kvóta á öll svæði frá og með árinu 2016. Örlitlar aðrar breytingar verða gerðar sem lesa má um varðandi hvert svæði hér að neðan.

Blanda I - Kvóti verður nú sex laxar á vakt per stöng í stað tólf laxa á dag áður, semsagt tæknileg útfærsla en ekki minni dagskvóti. Ekki er heimilt að færa óveiddan kvóta á milli vakta.

Blanda II - Kvóti verður þrír laxar á vakt á dag per stöng. Ekki er heimilt að færa óveiddan kvóta milli vakta. Veiðihúsið Móberg fylgir með svæði tvö frá og með 2016.

Blanda III - Kvóti verður þrír laxar á vakt á dag per stöng. Ekki er heimilt að færa óveiddan kvóta milli vakta. Gisting í Hólahvarfi með morgunverði fylgir hverri stöng.

Blanda IV - Einungis verður veitt á flugu allt tímabilið.  Kvóti verður þrír laxar á vakt á dag per stöng. Ekki er heimilt að færa óveiddan kvóta milli vakta. Sleppa verður öllum laxi 70cm og yfir."

Unnendur Blöndu hljóta að taka þessum breytingum vel enda er þetta gert með þeirri hliðsjón að laxinn njóti einhverrar verndar í ánni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira