Lífið

Kaldur hversdagsleikinn tekur við

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tanja Ýr, Óttarr og Rikka miðla sínum heilræðum.
Tanja Ýr, Óttarr og Rikka miðla sínum heilræðum.
Mörgum þykir erfitt að takast á við hinn svellkalda hversdagsleika og koma sér í sína rútínu á nýjan leik eftir hátíðarnar. Fólk er þó misjafnt og tekst á við sínar áskoranir með misjöfnum hætti. Vísir ákvað að kanna hvernig nokkrir einstaklingar takast á við lífstílsbreytingarnar sem oft á tíðum fylgja hátíðunum.

Hvernig tæklum við hina rútínuna?

Flestum þykir gott að komast aftur í rútínu eftir lengra frí. Jólafríið er þar engin undantekning og í upphafi nýs árs setja margir sér markmið eða strengja áramótaheit. Vissulega eru áramót tímamót þar sem gagnlegt er að líta til baka, þakka fyrir það sem árið veitti okkur, hvaða krefjandi verkefni eða hindranir sem við máttum yfirstíga eða takast á við. Þá er líka ágætt svona í upphafi árs að hugsa með sér hvernig vil ég minnast ársins 2016,“ segir Kristín Leifsdóttir, sálfræðingur hjá Heilsustöðinni, en hún tók saman nokkra punkta sem gott getur verið að hafa í huga þegar barist er við að komast aftur í rútínuna.

Nauðsynlegt er að hafa markmiðin skýr og raunhæf, setja sér markmið sem fela í sér áskorun sem við treystum okkur til að takast á við. Einnig er mikilvægt að átta sig á tilgangi markmiðsins, hvað á það að gefa okkur? Betri heilsu eða meiri tíma með okkar nánustu?

Mörg markmið og áramótaheit snúa að heilsu og lífsstíl. Flestir vilja öðlast betri heilsu og bættan lífsstíl. En hvernig, hvaða athafnir eru líklegar til að stuðla að bættri heilsu? Eins er mikilvægt að skilgreina, hvað er góð heilsa, hvenær verð ég sátt/-ur og finnst ég hafa öðlast góða heilsu?

Markmið geta verið til lengri eða skemmri tíma. Áramótaheit eru til heils árs. Við þurfum ekki að ná þessu markmiði í lok janúar, heldur er mikilvægt að gefa sér tíma. Sérstaklega þegar við viljum koma á nýjum venjum og siðum sem við viljum halda fast í til lengri tíma þurfum við að leyfa okkur að aðlagast breyttu mynstri. Það gerist ekki á einum degi eða tveimur.

Tanja Ýr Ástþórsdóttir, ungfrú Ísland árið 2013 og bloggari.vísir/pjetur
Aldrei of seint að breyta til

Vanalega leyfi ég mér nú alveg rosalega mikið og sukka því ekkert mikið meira yfir hátíðarnar heldur en dags daglega! Ég er lítið fyrir kjöt þannig að ég er ekki mikið að borða þetta salta og reykta kjöt. Hins vegar er ég sjúk í smákökur og ísinn sem mamma býr til og það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim frá Malasíu um daginn var að borða hálfan lítra af ís. Þetta er því ekkert svo mikil breyting eftir hátíðarnar,“ segir Tanja Ýr Ástþórsdóttir, ungfrú Ísland árið 2013 og bloggari, þegar hún er spurð hvernig hún komi sér aftur í rútínu eftir hátíðarnar.

Hún segist ekki vera mikið fyrir það að taka stórar ákvarðanir fyrir nýtt ár. „Ég set mér venjulega ekki ákveðin markmið á nýju ári heldur tek ég yfirleitt einn dag í einu sem mitt markmið. Það skiptir ekki máli að komast í besta form lífs síns, heldur finnst mér betri hugmynd að gera eitthvað sem manni finnst gaman að gera,“ segir Tanja Ýr.

Hún segir þó að rútínukenndin sé tiltölulega ný af nálinni hjá sér. „Ég var algjör „rollercoaster“ fyrir svona ári en er talsvert rútínukenndari í dag. Fólk á að gera það sem lætur því líða vel og ef því líður illa, þá er gott að skoða hverju það getur breytt. Það er líka gott að hafa einhvern félaga eða vin með sér í því, til dæmis að mæta í ræktina, mér finnst það vera mikil hvatning að hafa ræktarfélaga og það getur hjálpað fólki sem vill 

byrja að hreyfa sig.“

Það helsta í hennar plani er að byrja í fitness-boxi. „Mig langar mest að fara að æfa eitthvað, það er mitt helsta plan. Ég byrjaði í fitness-boxi í Hnefaleikastöðinni áður en ég fór út til Malasíu en þurfti að hætta. Mig langar mikið að fara þangað aftur. Það er svo gaman æfa í hóp þar sem maður kynnist fólki.“

Hennar heilræði til fólks á nýju ári er að það er aldrei of seint að breyta til og hugsa jákvætt. „Þegar fólk er að borða óhollt eins og til dæmis snakk, þá hugsar það oft, ég held bara áfram í snakkinu og að það taki því ekkert að breyta til. Mér finnst að fólk eigi frekar að hugsa, hvað á ég að gera næst og hugsa um hvernig það langi að verða. Fólk á ekkert að vera að horfa til baka heldur frekar að hugsa jákvætt og horfa fram á veginn. Það er aldrei of seint að breyta til, byrja að hugsa jákvætt og hugsa um hvað maður geti gert betur.“

Þingmaðurinn og tónlistarmaðurinn Óttarr Proppé. vísir/Stefán
Þýðir ekkert að setja neinar reglur

Ég er kannski ekki besti maðurinn til þess að spyrja út í hvernig maður kemur sér aftur í rútínu eftir hátíðarnar, því mitt líf býður ekki upp á mikla rútínu, þetta er meira endalausar tarnir. Aðalatriðið er að ljúga því að sér á morgnana, að nú sé daginn farið að lengja og passa að skammta ofan í sig kaffið, þ.e.a.s. að fá sér ekki kaffisopa þegar manni dettur í hug heldur á ákveðnum tímum,“ segir þingmaðurinn og tónlistarmaðurinn Óttarr Proppé um það hvernig hann hyggist takast á við amstur dagsins eftir hátíðarnar.

Hann segist ekki vera með nein sérstök plön á nýju ári. „Nei, ég er löngu vaxinn upp úr því að gera plön fyrir sjálfan mig. Ég reyni að vera hollur en fyrir mig þá þýðir ekkert að setja neinar reglur um þetta,“ segir Óttarr léttur í lundu.

Rokkarinn segist ekki luma á neinu sérstöku heilræði fyrir landsmenn en vill þó meina að góðir göngutúrar séu allra meina bót. „Nei, ég hef engin heilræði þannig séð, bara að það er hollt að reyna að horfa út á sjóinn og taka sér reglulega göngutúra, það hefur þau áhrif að heilinn gerir hlutina sjálfur.“

Friðrika Hjördís Geirsdóttir fjölmiðlakona, betur þekkt sem Rikka.Vísir/Valli
Taka þetta í litlum skrefum

Ég hætti ekkert minni rútínu þegar ég fer í jólafrí, því ég finn að ef ég hætti að hreyfa mig og fá frískt loft, þá er ekki von á góðu. Þetta er bara lífsmunstur sem ég hef komið mér í og ávani. Maður þarf að aga sig í að fara út að ganga þó maður sé ekki að fara slá Íslandsmet í spretthlaupi í þeirri göngu,“ segir Friðrika Hjördís Geirsdóttir fjölmiðlakona, betur þekkt sem Rikka, um sínar lífsstílsbreytingar yfir hátíðarnar.

Hún hvetur fólk til þess að finna sér einhverja hreyfingu sem það hefur áhuga á. „Með því að hreyfa sig fer maður að hlusta betur á líkama sinn. Mér finnst líka skipta gríðarlega miklu máli að finna eitthvað sem maður hefur áhuga á að gera þegar maður er að hreyfa sig. Það er gott að gera eitthvað í góðum félagsskap, þá skapast góð orka,“ segir Rikka. Hún nýtir hreyfingu einnig til þess að hlusta á uppbyggjandi hljóðbækur. „Ég hlusta auðvitað á góða tónlist en einnig hlusta ég á góðar og uppbyggjandi hljóðbækur þegar ég hreyfi mig.“

Hún er með ýmis plön fyrir árið og er til að mynda að hefja gönguskíðaferil sinn í vikunni. „Ég er byrja á gönguskíðanámskeiði á fimmtudaginn. Ég ætla taka Landvættinn, sem er mikil áskorun. Til þess að geta kallast Landvættur þarf ég að ljúka fjórum íþróttakeppnum í fjórum landshlutum innan ákveðins tímaramma.“

Hún hvetur fólk sem er að byrja í líkamsrækt til að byrja í litlum skrefum. „Fólk sem er að byrja að hreyfa sig á að taka þetta í litlum skrefum, það er bara að byrja einhvers staðar eins og að hlaupa á milli ljósastaura, þetta skilar sér allt í betra líkamlegu og andlegu ástandi. Þeir sem eru lengra komnir ættu endilega að setja sér markmið.“

Rikka hvetur fólk til þess að hugsa vel um líkama sinn. „Maður verður að byrja á sjálfum sér því maður fær bara einn líkama. Ef þú hugsar vel um hann getur þú gefið meira af þér. Það eru litlu skrefin sem skipta svo miklu máli því það er svo auðvelt að gefast upp. Hreyfing gengur ekki út á það að ná sixpakk eða vöðvamassa, heldur bara að láta sér líða vel.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×