Innlent

Bárðarbunga gæti valdið stórgosi í Veiðivötnum

Kristján Már Unnarsson skrifar

Bárðarbunga gæti brotist upp með stórgosi á Veiðivatnasvæðinu, að mati jarðvísindamanna Veðurstofu. Þar útloka sérfræðingar ekki að lítið gos gæti orðið innan skamms tíma en segja þó líklegast að það taki eldstöðina nokkur ár að safna upp nægilegum þrýstingi fyrir stórgos. 

Bárðarbunga, sem og önnur eldfjöll Íslands, er komin í gjörgæslu jarðvísindamanna því frá 1. nóvember hefur verið höfð vakt allan sólarhringinn á Veðurstofunni með eldstöðvum á landinu. Þar sjá menn að skjálftar mælast nú öflugri í Bárðarbungu samhliða því sem eldstöðin er að þenjast út. 

„Við túlkum það svo að það sé kvikusöfnun í gangi í kvikuhólfinu undir Bárðarbunguöskjunni,” segir Kristín Jónsdóttir jarðskjálftafræðingur, hópstjóri náttúruváreftirlits Veðurstofu, í viðtali í fréttum Stöðvar 2. Hún segir þetta aðeins geta endað með því að kvikan brjóti sér leið upp á yfirborð, það sé aðeins spurning um tíma hvenær þrýstingurinn verði orðinn nægur.

Sumarið 2014 braust kvika Bárðarbungu upp í Holuhrauni.

„Það er líklegast að það taki einhver ár. En það er þó ekki útlokað að það verði minna gos. Og þá er kannski líklegast að það verði minna gos nálægt öskjunni sjálfri af því að nú vitum við að það er kvikusöfnun í gangi þar. Þessi kvikusöfnun gæti valdið því að það kæmi einhver spýja upp, þá í öskjunni sjálfri, en það yrði þá eitthvað mjög lítið. Til þess að fá stórt gos þarf eldstöðin að fá tíma til að byggja upp þrýsting.” 

Kristín segir að kvikan leiti þangað sem fyrirstaðan sé minnst og það geti verið utan öskjunnar þar sem land er lægra. Hún segir möguleika á stóru gosi ef kvikan finni sér farveg til suðvesturs, inn á Veiðivatnasvæðið.

Frá Veiðivötnum. Svæðið er talið hluti af Bárðarbungueldstöðinni. Mynd/Stöð 2.

Veiðivatnasvæðið er þekkt fyrir stórgos í jarðsögunni og fyrir Þjórsárhraunið, sem það sendi niður Suðurland og til sjávar við Eyrarbakka. Það hraun er talið það það lengsta sem runnið hefur á jörðinni frá lokum síðustu ísaldar. Á Veiðivatnasvæðinu eru einnig Vatnsfellsvirkjun og Sigölduvirkjun og miðlunarlón Landsvirkjunar, þar á meðal Þórisvatn. 

-En setur þetta virkjanir í hættu eða byggð á Suðurlandi? 

„Eldgos eru hættuleg. Það náttúrlega fer algerlega eftir því hvar kvikan kæmi upp og hvert hún myndi renna. Það geta komið upp gos þarna bæði fyrir norðaustan, eins og við sáum í Holuhrauni, og svo getum við líka fengið gos þarna fyrir suðvestan,“ svarar Kristín Jónsdóttir.

Frá Vatnsfellsvirkjun. Mynd/Stöð 2.

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira