Fótbolti

Messi með tvö mörk og tvær stoðsendingar í fyrsta leik ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar og Andrés Iniesta fagna Lionel Messi í kvöld.
Neymar og Andrés Iniesta fagna Lionel Messi í kvöld. Vísir/Getty
Barcelona vann 4-1 heimasigur á nágrönnum sínum í Espanyol í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum spænska konungsbikarsins í fótbolta á Nývangi í kvöld.

Barcelona-maðurinn Lionel Messi byrjar árið á fullu skriði en hann skoraði tvö mörk í kvöld og lagði hin tvö fyrir félaga sína, Gerard Piqué og Neymar.

Seinni leikur liðanna fer síðan fram á heimavelli Espanyol í næstu viku. Barcelona er því í mjög góðum málum og ætti að eiga frekar auðvelt með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.

Leikmenn Espanyol fengu samt draumabyrjun þegar Felipe Caicedo kom liðinu í 1-0 strax á 8. mínútu leiksins.

Espanyol var þó bara yfir í fimm mínútur því Lionel Messi jafnaði á 13. mínútu eftir stoðsendingu frá Andrés Iniesta.

Messi kom Barcelona síðan í 2-1 með marki beint úr aukaspyrnu á 44. mínútu leiksins.

Gerard Piqué skoraði þriðja mark Barcelona eftir aðeins fimm mínútna leik í seinni hálfleiks.

Fjórða markið kom síðan í uppbótartíma og það skoraði Neymar eftir stoðsendingu frá Lionel Messi.

Lionel Messi skorar hér seinna markið sitt beint úr aukaspyrnu.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×