Handbolti

Guðjón Valur: Gefumst ekki upp eftir þrjá daga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Anton
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, segir að þreyta og breytingar á leikskipulagi liðsins hafi sett mark sitt á leikinn gegn Portúgal í kvöld.

Ísland tapaði leiknum, 32-28, eftir að hafa gefið mjög eftir í síðari hálfleik. Strákarnir voru marki yfir í hálfleik en misstu tökin á leiknum á síðustu tíu mínútunum.

„Ég ætla að vera í svakalegum Pollýönnuleik eftir þetta tap og ég stend við allt það sem hef sagt í undirbúningnum. Mér líst rosalega vel á allt liðið og viðhorfið hjá mönnum.“

Hann segir að líkamleg þreyta hafi haft mikið að segja um úrslit þessa leiks. „Við erum ekki eins og við eigum að okkur að vera. Við sjáum að ef við erum ekki með allt á hreinu þá getur maður líka tapað fyrir Portúgal en þeir sýndu að þeir eru með fínt lið.“

Vörnin ekki spiluð í sundur

Fyrirliðinn sagði að vandamálið hafi verið að Ísland fékk of mikið á mörkum á sig miðað við að gestirnir hafi ekki náð að slíta íslensku vörnina ítrekað í sundur.

„Það var verið að skjóta yfir okkur og í kringum okkur. Við þurfum að fínpússa ýmislegt en það er alls ekki þannig að það er verið að klippa okkur í sundur, hvað eftir annað.“

Portúgal seig fram úr á síðustu mínútum leiksins og Guðjón Valur segir að íslenska vörnin hafi opnað sig þá. Það hafi ekki verið að marka leik Íslands þá.

„Þeir fóru ekki illa með vörnina okkar og mér finnst að það sem að við höfum verið að æfa er að virka - til dæmis hraðaupphlaupskerfin og fengum við fullt af góðum færum úr þeim.“

„Við erum að breyta leik okkar töluvert - bæði í hraðaupphlaupum og vörn. Það væri því fáránlegt að gefast upp eftir aðeins þrjá daga,“ segir hann enn fremur.

Hafa pung til að taka ákvarðanir

Margir leikmenn í íslenska hópnum eru að berjast fyrir því að komast í EM-hópinn sem fer í Póllands og fyrirliðinn vill að menn leggi sig fram í þeirri baráttu.

„Við erum einskis virði ef við erum ekki allir á fullu. En þegar menn eru þreyttir þá er það erfitt. Menn þurfa engu að síður að koma inn í leikinn eins og að þeir eru að berjast fyrir lífi sínu.“

„Ef menn eru nógu góðir þá þurfa þeir líka að hafa pung til að taka ákarðanir og sýna að þeir hafi þann þroska sem þarf til að spila með landsliðinu, vera í sviðsljósinu og fara á stórmót. Þetta er einfaldlega fyrsta trappan í löngum stigagangi fyrir þá.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×