Enski boltinn

Borguðu fyrir að spila fótbolta og notuðu gamlar treyjur af karlmönnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steph Houghton er einn besti leikmaður enska kvennalandsliðsins.
Steph Houghton er einn besti leikmaður enska kvennalandsliðsins. vísir/getty
Steph Houghton, leikmaður Manchester City og fyrirliði enska kvennalandsliðsins í fótbolta, er ánægð með þróunina sem hefur verið í kvennaboltanum undanfarin ár en vill að nú verði meðbyrinn á Englandi notaður til að taka næsta skref.

Enska kvennalandsliðið stóð sig frábærlega á HM í Kanada í sumar og náði þar í brons, en mikill uppgangur hefur einnig verið í úrvalsdeild kvenna á Englandi.

Mikil auknin var í aðsókn á leiki í deildinni á síðustu leiktíð. Áhorfendafjöldi jókst um 48 prósent og sóttu að meðaltali 1.076 manns hvern leik.

Meðbyrinn með kvennalandsliðinu er gífurlegur en ríflega 45.000 manns komu að sjá ljónynjurnar á Wembley í nóvember 2014 þegar þær mættu Evrópumeisturum Þýskalands.

„Það hefur verið mikil þróun,“ segir Houghton í viðtali við BBC, en enska liðið var eitt einnig eitt þeirra kvennalandsliða sem bætt var í vinsæla fótboltatölvuleikinn FIFA 16.

„Ég man þegar ég byrjaði fyrst að spila 14 ára fyrir Sunderland. Þá þurftum við að borga fyrir að spila, við notuðum gamlar treyjur af karlmönnum og fengum engan æfingagalla.“

Fyrirliðinn segir að mikil vinna hafi farið í að gera kvennafótboltann eins flottan og raun ber vitni í dag.

„Að sjá stelpur í dag með nafnið manns á bakinu er einstök tilfinning. Það var líka geggjað að komast í FIFA. Það var frábært skref í rétta átt. Þetta virkar lítið en þetta er risastórt fyrir kvennafótboltann,“ segir Steph Houghton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×