Innlent

Upptaka lykilgagn í málinu: Meintur samverkamaður lögreglumannsins í gæsluvarðhaldi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar.
Maðurinn hefur kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar. vísir/heiða
Karlmaður á fertugsaldri sem grunaður er um að vera samverkamaður lögreglumanns í fíkniefnadeild LRH sem sat í gæsluvarðhaldi frá 29. desember og þar til í dag hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. janúar. Maðurinn hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Ekki hafa fleiri verið handteknir í tengslum við málið að sögn Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknara, en embætti ríkissaksóknara fer með rannsókn málsins. Hann getur hins vegar ekki tjáð sig um hvort að fleiri einstaklingar séu grunaðir um aðild að málinu.

Húsleit var gerð bæði heima hjá lögreglumanninum og manninum sem nú situr í gæsluvarðhaldi í tengslum við handtökur þeirra. Samkvæmt heimildum fréttastofu er upptaka af samtali mannanna tveggja lykilgagn í málinu og varð til þess að lögreglumaðurinn var handtekinn milli jóla og nýárs og hinn maðurinn svo í kjölfarið.

Eiga eftir að taka ákvörðun um hvort lögreglumaðurinn verði leystur frá störfum

Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að mál lögreglumannsins sé nú í skoðun þar sem taka þarf ákvörðun um það hvort hann verði leystur frá störfum á grundvelli laga um opinbera starfsmenn.

Lögreglumaðurinn er á fimmtugsaldri og sat í einangrun á Litla-Hrauni vegna rannsóknarhagsmuna þar til í dag. Afar fátítt er að lögreglumenn séu úrskurðaðir í gæsluvarðhald og mun það ekki hafa gerst í fleiri áratugi.

Maðurinn er grunaður um að hafa átt í óeðlilegum samskiptum við brotamenn en ekki hafa fengist frekari upplýsingar um sakarefnið. Lögreglumaðurinn neitar sök.



Tengdar fréttir

Mál lögreglumannsins á sér aðdraganda

Reyndur fíkniefnalögreglumaður grunaður um alvarleg brot í starfi situr í einangrun á Litla Hrauni. Mál hans hefur átt sér nokkurn aðdraganda og fíkniefnadeild hefur verið undir smásjánni um nokkurn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×