Handbolti

Mikkel Hansen: Guðmundur þarf að fínpússa marga hluti í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen.
Mikkel Hansen. Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu spila síðustu undirbúningsleiki sína fyrir Evrópumótið í Póllandi á Gullmótinu í Frakklandi.

Mótherjar danska liðsins verða Katar, Noregur og Frakkland og fyrsti leikurinn er á móti Katarbúum í kvöld.

Danska liðið þarf að læra að lifa án René Toft Hansen en þessi sterki varnar- og línumaður sleit krossband í leik með Kiel.

Guðmundur Guðmundsson þarf því örugglega að leggja mikla áherslu á varnarleikinn í þessum þremur leikjum í Frakklandi.

„Ég vil bara fá tækifæri til að spila leik og sjá hvernig þetta lítur út hjá okkur. Við þurfum að fínpússa fullt af hlutum og það er spennandi að sjá hvernig þetta kemur út hjá okkur í Frakklandi," sagði Mikkel Hansen í samtali við hbold.dk.  

Hansen er gríðarlega mikilvægur fyrir danska liðið enda einn allra besti handboltamaður heims.  Hver veit nema hlutverk hans í varnarleiknum verði nú enn stærra en áður.

„Við höfum misst René, herforingjann okkar í vörninni og nú þurfum við að finna út hver taki við að honum og stýrir vörninni okkar," sagði Hansen.

Evrópumótið í Póllandi verður annað stórmót danska landsliðsins undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar. Danir lentu í fimmta sæti á HM í Katar á síðasta ári.

Danir eru í riðli með Ungverjalandi, Rússlandi og Svartfjallalandi og mæta Rússum í sínum fyrsta leik.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×