Innlent

Einkaaðilar borga virðisaukaskatt af sorphirðu en borgin ekki

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar

Samtök iðnaðarins segja skekkta samkeppnisstöðu á milli einkaaðila sem taka að sér sorphirðu og Reykjavíkurborgar, þar sem einkafyrirtæki borgi virðisaukaskatt af slíkri starfsemi en borgin ekki.

Reykjavíkurborg tók um áramótin í notkun nýtt sorphirðukerfi. Einhverjir hafa gagnrýnt þetta nýja fyrirkomulag en hafa ber í huga einkafyrirtæki taka einnig að sér sorphirðu.

„Við myndum vilja sjá nú þegar borgin er að útfæra þjónustuna á þessu sviði að einkaaðilar yrðu dregnir meira að borðinu. En fyrst að borgin kýs að gera þetta sjálf að það sé lágmarkskrafa að það sé gert á jafnréttisgrundvelli. Nú er það þannig að einkaaðilar sem bjóða þessa þjónustu borga virðisaukaskatt, en borgin borgar ekki virðisaukaskatt af þessari þjónustu hjá sér. Þannig að það er þarna skekkt samkeppnisstaða á milli aðila,“ segir Bryndís Skúladóttir forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs Samtaka iðnaðarins. 

Ríkisskattsjóri ályktaði í október 2013 að borginni væri skylt að greiða virðisaukaskatt af söfnun á endurvinnanlegum úrgangi þar sem hún væri í beinni samkeppni við einkafyrirtæki. Bryndís segir það þó ekki hafa verið gert. Samtök iðnaðarins séu ósátt við þá stöðu.

„Þetta er skekkt samkeppnisstaða sem einkaaðilar eru nú að kjást við í samkeppni við Reykjavíkurborg,“ segir hún.

Borgin býður nú, auk tunnu fyrir blandaðan úrgang, tvær endurvinnslutunnur, aðra fyrir plast og hina fyrir pappír og pappa. Íbúum borgarinnar er þó frjálst að skipta við einkaaðila sem bjóða eina endurvinnslutunnu.

„Þetta kemur ekki fram í kynningarefni hjá borginni þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi ályktað að borginni beri að kynna borgarbúum það í kynningarefni í kringum svona verkefni að það standi til boða,“ segir Bryndís. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira