Fótbolti

Messi með sýningu í öruggum sigri Barcelona

Lionel Messi.
Lionel Messi. Vísir/Getty

Argentínski snillingurinn Lionel Messi var allt í öllu í öruggum 4-0 sigri Barcelona á Granada á heimavelli í dag en með sigrinum skaust Barcelona um tíma upp fyrir Atletico Madrid í efsta sæti spænsku úrvalsdeildarinnar.

Eftir markalaust jafntefli gegn nágrönnunum í Espanyol um síðustu helgi voru lærisveinar Luis Enrique harðákveðnir í að ná toppsætinu af Atletico Madrid á ný.

Messi var í miklu stuði og skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og var Barcelona komið 2-0 yfir þegar aðeins korter var búið að leiknum.

Messi bætti við þriðja marki sínu og þriðja marki Barcelona í leiknum þegar hann náði frákastinu af skoti Neymars og setti boltann í autt netið.

Neymar var síðan sjálfur á ferðinni sjö mínútum fyrir leikslok þegar fyrirgjöf Luis Suárez rataði alla leiðina á Neymar á fjærstönginni og setti hann boltann yfir liggjandi markmann Granada.

Sannfærandi 4-0 sigur staðreynd og náði Barcelona toppsætinu á ný í bili en Atletico Madrid getur komist aftur upp fyrir Barcelona með sigri á Celta Vigo annað kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira