Innlent

Ekki að sparka í liggjandi mann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristófer Dignus segir engan heilagan þegar kemur að gríni.
Kristófer Dignus segir engan heilagan þegar kemur að gríni. vísir/ernir
„Það hefur ekki komið til umræðu enda ekki verið farið fram á neitt slíkt. En mér þykir það vissulega leitt að þetta atriði eða önnur í Skaupinu hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum áhorfendum eða sært þá enda er það sannarlega ekki tilgangurinn,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson, aðspurður um hvort til greina komi að biðja Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, afsökunar á atriði þar sem Sigurður kemur við sögu í Áramótaskaupinu.

Í þessu tiltekna atriði er spiluð upptaka af samtali sem fréttastofa RÚV átti við Sigurð sama dag og hann var dæmdur í fangelsi í Hæstarétti vegna al Thani-málsins. Jónas Sigurgeirsson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Kaupþings, gagnrýnir þetta atriði harðlega í Fréttablaðinu í gær. Gagnrýnin vakti nokkra athygli á samfélagsmiðlum. Sigurður sætir, sem kunnugt er, fangelsisrefsingu á Kvíabryggju.

Kristófer Dignus, leikstjóri Ára­mótaskaupsins, segir umrætt grín vera pínlegt og það eigi að vera þannig, enda vísi það til pínlegs atburðar á síðasta ári. Í stað þess að vera með leikið atriði, þar sem leikarar léku bankamenn, hafi verið ákveðið að fara þá leið sem farin var.

„Mér finnst þetta hafa snert svolítið mikið okkur sem þjóð, það sem gerðist og afleiðingar þess sem gerðist,“ segir Kristófer um bankahrunið og afleiðingar þess..Hann segir engan vera heilagan þegar kemur að gríni og grínið hafi verið góðlátlegt. „Mér finnst við ekki vera að sparka í liggjandi mann.“

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segist ekki vita til þess að Sigurður Einarsson hafi gert athugasemdir við umrætt atriði. Skarphéðinn segir nálgunina í umræddu atriði vissulega hafa verið djarfa, en hann trúi ekki að nein meinfýsni hafi ráðið för hjá höfundunum.

Fréttablaðið hringdi á Kvíabryggju og óskaði viðbragða frá Sigurði Einarssyni, en var tjáð að hann væri upptekinn vegna funda með lögfræðingum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×