Enski boltinn

Pellegrini kemur Toure til varnar: Getur gert gæfumuninn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Toure og Pellegrini á góðri stundu.
Toure og Pellegrini á góðri stundu. vísir/getty
Manuel Pellegrini, stjóri Manchester City, hefur stigið til varnar Yaya Toure, miðjumanni City, og sagt að hann geti enn gert gæfumuninn hjá City ætli liðið sér að verða meistari. Toure hefur spilað nokkra fína leiki hjá City í vetur, en dottið langt niður á milli eins og gerðist í vikunni gegn Everton.

„Hann er ekki svo gamall. Mér finnst hann vera leikmaður sem er mjög mikilvægur, reynslumikill og veit hvernig á að spila leikinn. Kannski yfir allt tímabilið er hann ekki klár í að spila þrisvar í viku, en ég held að hann geti gert gæfumuninn,” sagði Pellegrini í samtali við fjölmiðla.

„Alltaf þegar fólk segir að við séum ekki með hópinn sem við þurfum þá lítur fólk á Yaya, en muniði það að hann skoraði í þremur af síðustu fimm leikjum.”

Yaya átti dapran leik gegn Everton í 2-1 tapi í fyrri undanúrslitaleiknum í deildarbikarnum í vikunni, en eftir þann leik var Toure mikið gagnrýndur. Talað um að hann væri orðinn of hægur og of gamall. Pellegrini gefur lítið fyrir það.

„Hann spilaði kannski ekki vel gegn Everton, en allir leikmenn spila stundum vel og stundum illa. Þú getur ekki alltaf sagt að það sé útaf hann sé eldri - allir eiga slæma leiki,” sagði Síle-maðurinn og bætti við að lokum:

„Kannski er fólk bara að ímynda sér og skoða hann út frá því hvernig hann hreyfir sig, en ef þú lítur á tölurnar hjá Yaya þá hleypur hann jafn mikið í hverjum leik og næsti maður fyrir hliðina á honum,” sagði Pellegrini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×