Skoðun

Ekki lengur gullúr

Una Margrét Jónsdóttir skrifar
Árið 2007 var rekstrarformi Ríkisútvarpsins breytt og það var gert að opinberu hlutafélagi: Ríkisútvarpinu ohf. Í leiðara Morgunblaðsins 25. 1. 2007 var hneykslast á þeim stjórnmálamönnum sem höfðu haldið því fram að eftir breytinguna yrði frekar gengið á rétt starfsmanna. Sagði Morgunblaðið að starfsmenn Ríkisútvarpsins ættu einmitt að fagna breytingunum því reynslan af hlutafélagavæðingu ríkisstofnana sýndi „að þar losnar yfirleitt úr læðingi sá kraftur og hæfileikar, sem búa í starfsfólki en hið dauða stofnanaskipulag drepur niður“.

Nú eru 8 ár síðan þessi orð voru rituð. Á þeim tíma höfum við starfsmenn Ríkisútvarpsins tvisvar orðið að þola gífurlegar fjöldauppsagnir vegna sparnaðar og nú fyrir skömmu var sagt upp tveimur úrvals dagskrárgerðarmönnum á Rás 1, Hönnu G. Sigurðardóttur og Sigríði Stephensen, þó að enginn sparnaður kallaði á þessar uppsagnir. Því fór fjarri að Hanna og Sigríður hefðu nokkuð brotið af sér í starfi, þvert á móti höfðu þær verið vinsælir og virtir dagskrárgerðarmenn um árabil. „Losnar úr læðingi kraftur og hæfileikar“ sagði Morgunblaðið 2007. Já, „losnar“ er rétta orðið, losnar burt frá stofnuninni því starfsmönnum sem sýna að þeir hafa kraft og hæfileika til að bera er sparkað. Og ef við sem eftir sitjum eigum eftir einhverja krafta eða hæfileika er það með naumindum að við getum haldið þeim við, svo mjög hafa sífelldar uppsagnir og óvirðing við starfsfélaga okkar gengið nærri okkur, og við lifum í sífelldum ótta um að missa starfið. Þetta er sú sæla sem breyting Ríkisútvarpsins í hlutafélag hefur fært starfsmönnum þess.

Sagt er að áður hafi það verið venja að fyrirtæki gæfi þeim starfsmanni gullúr sem átti að baki margra ára farsælan feril hjá stofnuninni. Þetta tíðkast ekki lengur. Nú er uppsagnarbréf þau verðlaun sem fólk hlýtur fyrir áratuga gott starf.

Þegar Magnús Geir Þórðarson var ráðinn útvarpsstjóri fyrir rúmu ári vorum við starfsfólkið í sárum eftir mikla uppsagnahrinu sem framkvæmd var á svo ruddalegan hátt að þess eru fá dæmi. Við vonuðum heitt að með nýjum yfirmönnum myndu renna upp nýir og betri tímar, komið yrði fram við starfsfólk af virðingu, trúmennska og góður árangur í starfi yrðu metin að verðleikum. Vegna þessarar vonar höfum við reynt að taka flestum ákvörðunum nýrra yfirmanna með jákvæðu hugarfari, t.d. breytingum á húsnæði, þó að þær hafi haft talsverð óþægindi í för með sér. „Mann langar svo mikið til þess að þetta gangi!“ sagði Sigríður Stephensen við mig einu sinni á liðnu ári. Okkur grunaði ekki þá að uppsögn hennar væri skammt undan. Það eru óumræðileg vonbrigði að það skuli vera þau skilaboð sem nýir yfirmenn kjósa að senda góðum og reyndum starfsmönnum. Ætlar þessari uppsagnamartröð þá aldrei að ljúka?

Við förum ekki fram á mikið. Það er enginn að biðja um gullúr. En getur það verið að það sé ekki mögulegt nú á 21. öldinni að verðlauna fyrir gott starf og trúmennsku öðruvísi en með uppsagnarbréfi?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×