Innlent

Ekkert lát á kynþáttafordómum á netinu

Snærós Sindradóttir skrifar
Umræðan síðustu daga hefur meðal annars snúist um hvort hælisleitendur eigi að fara í læknisskoðun við komuna til landsins.
Umræðan síðustu daga hefur meðal annars snúist um hvort hælisleitendur eigi að fara í læknisskoðun við komuna til landsins. Nordicphotos/afp

„Þessi afmennskun felur í sér að fólki finnst það geta sagt hvað sem er á kommentakerfinu,“ segir Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Fréttir síðastliðinna daga, af hælisleitanda sem grunaður er um að hafa smitað konur af HIV-veirunni og af sjö Albönum sem voru fluttir héðan með leiguflugi án fyrirvara, hafa vakið hörð viðbrögð á athugasemdakerfum vefmiðlanna. Skoðanirnar eru oftar en ekki litaðar af kynþáttahyggju og þau viðhorf viðruð að Ísland eigi ekki að taka við neinum hælisleitendum til landsins.

„Varðandi hælisleitendur almennt þá er hælisleitandinn orðinn miðlægur í umræðunni sem einhvers konar ógn við þjóðríkið, ásamt múslimum og fólki frá Austur-Evrópu,“ segir Kristín.
„Það sem er mikilvægt að leggja áherslu á er að hælisleitandi er pólitísk skilgreining sem segir akkúrat ekkert um þessa manneskju. Þeir eru smættaðir niður í það að vera hælisleitendur, ekki manneskjur með ólíka sögu og bakgrunn.“

Rannsóknir hafa sýnt hvernig aukin kynþáttahyggja kemur oft fram við efnahagsþrengingar. Kristín segir að hér á landi hafi reiði almennings við hrun fyrst og fremst beinst að bankamönnum og fólki úr viðskiptalífinu.

„Þetta þýðir samt ekki að það séu ekki meiri fordómar nú en áður. Það eru margir með innflytjendabakgrunn sem upplifa og sjá að það eru auknir fordómar í þeirra garð eftir hrunið.“

Kristín segir að þótt kynþáttafordómar séu fyrst og fremst kóðaðir í byggingu samfélagsins virðist athugasemdakerfin vera sá staður þar sem fólk reyni ekki að fela skoðanir sínar á útlendingum.

Anna Katarzyna Wozniczka

Undir þetta tekur Anna Katarzyna Wozniczka, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna. Hún segir að földu fordómarnir séu meiri í íslensku samfélagi. Fólk af erlendum uppruna fái síður vinnu og eigi í meiri erfiðleikum með að finna sér húsnæði. Hún tekur þó eftir aukinni neikvæðri umræðu á internetinu, sem hafi ekki verið til staðar þegar hún flutti hingað til lands.

„Ég veit ekki hversu margir lesa þessar fréttir. Ég held að margir skoði þær ekki lengur af því það eru oft sömu fullyrðingarnar og maður verður fljótlega þreyttur á því,“ segir Anna og á þá við fréttir og athugasemdir um útlendingamál.

Aðspurð hvort fólk af erlendum uppruna taki rasískum athugasemdum persónulega svarar Anna:

„Já, sérstaklega þegar maður lendir í því sjálfur að verða fyrir sýnilegum fordómum. Fólk tekur það mjög persónulega.“

Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir að svo virðist sem viðhorf til innflytjenda verði ekki jákvæðari með bættari efnahag. Það geti tekið tíma fyrir viðhorfin að breytast, enda hafi kynþáttahyggjan ekki hellst yfir landann í einu vetfangi.
„En svo veit maður ekkert hvort það muni breytast eða hvenær það muni breytast. Þessi viðhorf skjóta sínum rótum. Svo lifa þessar hugmyndir áfram.“

Eiríkur bendir á að annars staðar á Norðurlöndunum hafi þjóðernispopúlískir flokkar náð að skjóta almennilega rótum.

„Dönsk stjórnmál snúast um þjóðerni núna. Það er öxullinn í dönskum stjórnmálum. Sögulega samhengið er of skelfilegt til að maður geti tekið sér það í munn, og vekur alltaf ugg,“ segir Eiríkur. „Ég er ekki að spá neinu slíku en manni finnst það alltaf hættulegt þegar þessar hugmyndir fara af stað.“

Eiríkur segir að þjóðernishyggja sé ekki einskorðuð við illa menntað fólk með lítið á milli handanna. Flokkar sem byggja á þjóðernishyggju hafi í forystu sinni fólk sem kemur vel fyrir og dregur að sér sams konar hópa fólks.

„Að miklu leyti er þetta afsprengi mjög alvarlegrar krísu sósíaldemókratíunnar í Evrópu. Þetta eru flokkar sem eru stofnaðir í kringum stéttabaráttu gegn hinum ráðandi stéttum. Svo gerist það smám saman að í forystu fyrir þessa flokka fara að koma fágaðri, betur menntaðir leiðtogar sem hafa áhuga á fínni blæbrigðum stjórnmálanna; lýðræði, umhverfisvernd, femínisma og ýmsum málum en um leið missa þeir tengslin við þessa verkamannagrasrót þessara flokka.“

Í því umhverfi segir Eiríkur auðvelt fyrir þjóðernissinnaða flokka að ná miklu fylgi. 


Tengdar fréttir

Sendir úr landi án fyrirvara

Sérstök flugvél var leigð af ríkislögreglustjóra til að flytja sjö hælisleitendur úr landi á miðvikudagskvöld. Á meðal þeirra var fjölskylda, foreldrar og barn. Stór hópur íslenskra lögreglumanna fylgdi hælisleitendunum út.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.