Íslenski boltinn

Ásgeir: Spilaði ekki mína bestu leiki í fyrra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR-ingar sækja að Ásgeiri í leik KR og ÍA en hann skoraði mark Skagamanna í leiknum og var svo aftur á skotskónum gegn Keflavík í síðustu umferð.
KR-ingar sækja að Ásgeiri í leik KR og ÍA en hann skoraði mark Skagamanna í leiknum og var svo aftur á skotskónum gegn Keflavík í síðustu umferð. vísir/vilhelm
Lagið góðkunna um Skagamenn sem skoruðu mörkin hefur ekki beint átt við ÍA á þessu tímabili. Allavega ekki fyrir leikinn gegn Keflavík í fyrradag. Þá voru Akurnesingar aðeins búnir að skora fjögur mörk í átta leikjum, fæst allra liða í Pepsi-deildinni. En Skagamenn hrukku heldur betur í sóknargírinn gegn Keflavík og tvöfölduðu markafjölda sinn með 4-2 sigri sem er sá fyrsti hjá ÍA síðan í 2. umferð.

Í samtali við Fréttablaðið eftir leik sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, að vinnan á æfingasvæðinu væri farin að skila sér í betri sóknarleik:

„Við erum búnir að reyna að breyta sóknarleiknum. Tilkoma Ásgeirs Marteinssonar hefur hleypt lífi í sóknarleikinn. Hann var mjög ógnandi á móti KR og í dag (fyrradag) var hann gríðarlega ógnandi og skoraði verðskuldað mark. Almennt séð hefur sóknarleikurinn batnað, við erum að fá fyrirgjafir og framhjáhlaup hjá bakvörðum á nýjan leik. Þetta eru hlutir sem hurfu úr leik okkar þegar okkur gekk illa en þetta er allt á réttri leið.“

Umræddur Ásgeir Marteinsson er maður 9. umferðar að mati Fréttablaðsins.

Miklu hættulegri upp á síðkastið

„Þetta var sex stiga leikur og við þurftum að vinna til að rífa okkur frá ÍBV og Keflavík,“ sagði Ásgeir en með sigrinum fá Skagamenn smá andrými í botnbaráttunni. ÍA er nú með níu stig, fjórum stigum meira en Eyjamenn og fimm stigum meira en Keflvíkingar. En hvað breyttist hjá ÍA í leiknum gegn Keflavík?

„Það er góð spurning. Ég er ekki alveg klár á því en við erum búnir að vera miklu hættulegri og grimmari fram á við en í síðustu leikjum. Ég veit ekki alveg hvað það er sem hefur breyst en það er allavega að virka,“ sagði Ásgeir sem var einnig á skotskónum gegn KR í 8. umferð og hefur því skorað í tveimur leikjum í röð.*

Leikurinn gegn Keflavík var hálf farsakenndur en eftir 38 mínútna leik var staðan 3-2, ÍA í vil. Keflvíkingar sóttu stíft í seinni hálfleik og fengu m.a. vítaspyrnu sem Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, varði. Ásgeir gulltryggði svo sigur Skagamanna með marki í uppbótartíma eftir sendingu Arnars Más Guðjónssonar inn fyrir vörn gestanna.

„Þetta var örugglega frábær leikur fyrir áhorfendur en við fengum á okkur tvö óþarfa mörk. En við sýndum karakter með því að komast aftur yfir eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik og kláruðum leikinn,“ sagði Ásgeir sem er nokkuð ánægður með fyrstu mánuðina hjá ÍA þótt hann viðurkenni að hann hafi ekki byrjað neitt sérstaklega vel.

Hjá ÍA hitti Ásgeir fyrir áðurnefndan Gunnlaug Jónsson en hann lék undir hans stjórn hjá HK 2013, þar sem Ásgeir sló fyrst í gegn. Hann segir endurfundina við Gunnlaug eina helstu ástæðuna fyrir því að hann gekk til liðs við ÍA.

Vildi vinna aftur með Gulla

„Gulli veit nákvæmlega hvernig leikmaður ég er og hvernig ég vil spila. Mér fannst rétt ákvörðun að fara aftur til hans eftir gott ár saman hjá HK. Gulli reyndist mér mjög vel og auðvitað vildi ég vinna aftur með honum,“ sagði Ásgeir sem lék með Fram í fyrra.

Þrátt fyrir slæmt gengi Safamýrarliðsins og misjafna spilamennsku hjá honum sjálfum er Ásgeir ekki á því að hann hafi tekið of stórt skref þegar hann fór úr 2. deildinni og upp í Pepsi-deildina til Fram.

„Það var góð reynsla að vera með í þessari uppbyggingu í fyrra. Það gekk reyndar ekki eins vel og við vonuðumst eftir og ég viðurkenni að ég spilaði ekki mína bestu leiki. En þetta var mikilvæg reynsla og ég sé ekki eftir því að hafa farið í Fram.

Ég vil ekki meina að þetta hafi verið of stórt skref. Auðvitað er munurinn á deildunum mikill en ég náði mér bara ekki almennilega á strik í fyrra. En núna er ég að spila betur og betur í þessari deild,“ sagði Ásgeir sem hefur verið að spila sem framherji hjá ÍA og líkar það vel.

„Ég vil meina að mín besta staða sé frammi eða rétt fyrir aftan fremsta mann. Ég kann líka vel við mig á kantinum en það er kannski ekki mín besta staða. Það er gott að vera kominn fram,“ sagði Ásgeir að lokum en Skagamenn sækja Val heim á Vodafone-völlinn í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×