Innlent

Veltir fyrir sér endurútgáfu Spegilsins

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Úlfar Þormóðsson veltir því fyrir sér að gefa bannað tölublað Spegilsins aftur út.
Úlfar Þormóðsson veltir því fyrir sér að gefa bannað tölublað Spegilsins aftur út. mynd/spegillinn
„Ég tek fréttunum bara þegjandi. Jú, og fagnandi fyrir framtíðina,“ segir Úlfar Þormóðsson, rithöfundur og guðlastari, um þær fréttir að frumvarp Pírata um afnám ákvæðis sem bannar guðlast hafi verið afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í gær.

Þingmenn Pírata lögðu frumvarpið fram í vetur. Samkvæmt núgildandi lögum skal hver sem smánar guðsdýrkun löglegs trúfélags sæta sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum. 

„Þetta hefur svo sem enga eftirvirkni en þetta er gott fyrir líðandi stund og næstu tíma,“ segir Úlfar.

Úlfar Þormóðsson


Úlfar er eini núlifandi Íslendingurinn sem dæmdur hefur verið fyrir guðlast en hann var árið 1983 dæmdur fyrir grein sem birtist í spaugtímariti sem hann ritstýrði, Speglinum.

Lögbann var sömuleiðis sett á tölublaðið sem greinin birtist í. Í greininni er fjallað um mann sem leiddist út í glæpi eftir að kirkjan freistaði hans með messuvíni við fermingu.

„Ég hef stundum velt því fyrir mér. Ég er ekkert búinn að yfirgefa þann þanka neitt. Þannig að ég hef það bara óráðið,“ segir Úlfar, spurður um hvort hann hyggist gefa tölublaðið út aftur verði frumvarpið samþykkt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×