Innlent

Landvernd leggst gegn álverinu

Sveinn Arnarsson skrifar
Snorri Baldursson
Snorri Baldursson
Landvernd leggst alfarið gegn hugmyndum sveitarfélaga á Norðvesturlandi um að kínverskt fyrirtæki reisi álver norðan Blönduóss. Sveitarfélög á svæðinu hafa skrifað undir viljayfirlýsingu við forsvarsaðila kínversks álframleiðanda um að 120 þúsund tonna álver verði reist í landi Hafursstaða norðan Blönduóss.

„Það er skiljanlegt að sveitarfélög fari alltaf þessa leið til að fá atvinnuuppbyggingu í héraði. Í þau skipti sem stóriðja er annars vegar kemur ríkið myndarlega inn í með ívilnunum og öðru. Ríkið verður að hætta þeirri pólitík og snúa þessari þróun við,“ segir Snorri Baldursson, formaður Landverndar, sem segir virðisauka af álbræðslu mun minni en af ferðaþjónustu sem njóti íslenskrar náttúru.

Arnar Þór Sævarsson
Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, telur þetta gleðitíðindi fyrir atvinnuuppbyggingu á öllu svæðinu og styrkja byggð. „Við skrifuðum undir viljayfirlýsingu við Klappir, sem er forsvarsaðili kínversks álframleiðanda.“

„Hugmyndin er sú að kínverska fyrirtækið reisi með kínverskri tækni álver sem er um 120 þúsund tonn að stærð og þarf til þess um 200MW orku. Nú bíðum við og vonum að stjórnvöld ráðist í virkjanaframkvæmdir til að mæta þessari þörf,“ segir Arnar Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×