Gagnrýni

Tónleikar sem enduðu með eins konar sveitaballi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Stuðmenn komu fram ásamt miklu fagfólki á vel heppnuðum tónleikum. Þó svo að sveitin troði ekki upp um hverja helgi er hún í fantaformi og minnti enn og aftur á sig sem ein allra flottasta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu.
Stuðmenn komu fram ásamt miklu fagfólki á vel heppnuðum tónleikum. Þó svo að sveitin troði ekki upp um hverja helgi er hún í fantaformi og minnti enn og aftur á sig sem ein allra flottasta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu. vísir/ernir
Stuðmenn

Sumar á Sýrlandi heiðurstónleikar

Eldborgarsalurinn í Hörpu 5 og 6. júní



Hljómsveitin Stuðmenn kom saman um liðna helgi í Hörpu til þess að leika lög af sinni fyrstu breiðskífu, Sumar á Sýrlandi, sem kom út árið 1975. Það geta flestir verið sammála um að platan skipar merkan sess í íslenskri tónlistarsögu og á henni er að finna nokkur lög sem flestum Íslendingar þykir pínu vænt um. Þá er ég að tala um lög eins og Tætum og tryllum, Út á stoppistöð, Strax í dag, Í bláum skugga og svo gæti ég lengi talið.

Stuðmennirnir Ásgeir Óskarsson, Egill Ólafsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas Tómasson og Valgeir Guðjónsson voru í fantaformi og sama mátti segja um allt fagfólkið sem lék með þeim á tónleikunum. Alls voru sextán manns á sviðinu í einu þegar mest lét. Ágústa Eva Erlendsdóttir fór á kostum og náði að bregða sér í gervi Stínu stuð og að stæla Steinku Bjarna með glæsibrag, ásamt því að koma sínum einstöku persónutöfrum til skila.

Tónleikarnir hófust með tökulagi, laginu Apache eftir The Shadows. Þar kom hin mikla kímnigáfa meðlima sveitarinnar í ljós, ásamt frábærri spilamennsku, og gátu áhorfendur hlegið og skemmt sér dátt.

Svo rúlluðu tónleikarnir eins og vel smurð vél og greinilegt að sveitin var vel æfð. Lagið Út á stoppistöð var útsett á nýjan hátt og hefðbundinn kafli í taktegundinni 4/4 var kominn í 7/8 takttegund, sem kom vel út.

Þá var gaman að sjá Stuðmenn taka lagið She broke my heart með Long John Baldry. Þó svo að breski blússöngvarinn hafi fallið frá árið 2005, þá var honum varpað á skjá og söng

hann dátt við undirleik Stuðmanna.

Ágústa Eva Erlendsdóttir fór á kostum.
Dúddi stal senunni um stund og tókst á flug í laginu Fljúgðu og hafði salurinn greinilega gaman af atriðinu. Bassaleikarinn Tómas Tómasson átti frábæran sprett þegar hann fræddi áhorfendur um lagið Á Spáni, en hann söng lagið upphaflega og sýndi hversu megnugur hann er með míkrófóninn.

Eftir að lögin af plötunni höfðu runnið sitt skeið var komið að því að setja punktinn yfir i-ið. Stuðmenn töldu í nokkra af sínum helstu slögurum í lokin, lög eins og Ofboðslega frægur, Betri tíð og Íslenskir karlmenn voru þá leikin. Salurinn var þarna allur staðinn á fætur og fólk í góðum gír og eflaust einhverjir orðnir þreyttir í fótum á því að standa og dansa og í höndum á öllu klappinu.Gunnar Leó Pálsson

Niðurstaða: Á heildina litið voru þetta virkilega skemmtilegir tónleikar. Hljóð, ljós, hljóðfæraleikur og söngur nánast gallalaus. Það er greinilegt að mikið var lagt í æfingar og útsetningar fyrir tónleikana. Maður gat þó upplifað tónleikana eins og það hefði allt geta gerst og að spontant ákvarðanir og ýmis kjú væru mjög lifandi og frjáls, sem er gott. Ég tel að áhorfandinn lifi sig enn frekar inn í tónleikana ef hann skynjar slíkt frelsi tónlistarmannanna á sviðinu.

Stuðmenn í stuði á sviði Eldborgar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×