Skoðun
Örnólfur Hall, arkitekt

Um óveðursskaða og leka í Hörpu o.fl.

Örnólfur Hall skrifar

Þeir sem fara um Hörputorg (malbikstorgið) geta séð þaðan að í óveðrinu 30.11. sl. skemmdist og rifnaði upp nýr þakkantur á alllöngum kafla að vestanverðu. Nú er opið þar inn að pappaþaki Eldborgar. Þetta er annar þakkantur en sá sem var byggður í upphafi og var fjarlægður. Nú þarf að byggja upp þann þriðja. Allt er þá þrennt er!

Undir þessu þaksvæði er vinsælt hjá fjölmiðlafólki að spjalla við m.a. Íslandsvini með „stuðla“-vegg í baksýn. Vandræði voru líka áður með sams konar þakkant á austurhlið hússins og mátti sjá hann opinn á kafla, í nokkra mánuði, í bið eftir réttri viðgerð. Það á að hafa tónað í kanti undir tónum Töfraflautunnar að sögn gesta.

Þann 16.12.14 komu svo fréttir um lekaflóð (úr loftræsirörum) undir glerplötuþakinu ofurdýra (130 millj.). Margir gestir muna líka þegar þeir lentu í óvæntu steypibaði úr lofti Eldborgarsalar á Abba-tribute tónleikum fyrir fáum árum.

Óveðrin
Harpa virðist ekki þola veðurofsa eins og sjá mátti líka í óveðri í nóvember 2012: Rúður létu á sjá og klæðning rifnaði undan norðurhlið og fordyri aðfanga- og tæknibíla fuku upp. Það var mikil mildi að brakið frá bílafordyrinu, sem fauk út á austurgarðinn, lenti ekki á túristum í nánd. Það brakaði og ískraði í hjúp, sagði starfsfólk og gestir. Þá voru nánast helgispjöll að flytja annað en mærðarfréttir af Hörpu og ekki mátti vekja athygli á þessu í fjölmiðlum með myndum.

Úttektir og ábyrgðir
Enn hefur undirritaður og kollegi hans ekki fengið að sjá áður umbeðin úttektar- og ábyrgðargögn um Hörpu. En á fundi okkar með fv. stjórnarformanni Hörpu var okkur sagt að þau væru hjá embætti byggingarfulltrúa. Nýlega var aftur komið að tómum kofa hjá embættinu um þetta, í svonefndum „Erindreka“ (upplýsingaveitu bftr.). Líka finnast ekki enn opinberar upplýsingar um þann hluta kostnaðar (milljónahlut) í fyrri gallavegg Hörpu sem í svari fv. ráðherra menntamála í janúar 2011, (fyrirspurn M.Á. 16.02.11) kom fram að lenti á verkkaupa (ríki og borg). Þ.e.a.s. okkar kostnaðarhluti í klúðri verktaka.

Í mars 2014 voru komnar 100.2 milljónir í viðhald á Hörpu (Heimild: Fjárlög 2011-(02-969/6.23) og RÚV-15/5/14. Er þetta Íslandsmet í opinberri byggingu á svo stuttum tíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.