Skoðun

Þín viðhorf – tvöföld áhrif

Herdís Pála Pálsdóttir skrifar

Þín eigin viðhorf eru eins og linsa sem hægt er að horfa í báðum megin frá.
Þegar þú horfir í gegnum linsuna þína og skoðar viðfangsefni þín verður sýn þín á þau lituð af þínum eigin viðhorfum.

Viðfangsefni þín geta verið verkefni sem þú þarft að leysa, samskipti sem þú þarft að eiga o.fl.
Það hvernig þú nálgast og leysir, eða leysir ekki, viðfangsefni þín er því alltaf mótað eða skýrt með þínum viðhorfum – og svo heppilega vill til að þú getur valið þau alveg sjálf eða sjálfur.

Stundum er spurt hvort þú sjáir glasið hálffullt eða hálftómt. Það væri líka hægt að spyrja spurninga eins og hvort þú bíðir eftir tækifærum eða hvort þú skapir þér þín eigin tækifæri. Bíður þú eftir að aðrir komi þér til aðstoðar eða leitar þú leiða til að aðstoða aðra? Glímir þú við vandamál eða viðfangsefni? Bíður þú eftir að aðrir taki fyrsta skrefið til þín ef eitthvað kemur upp á eða tekur þú fyrsta skrefið? Þín eigin viðhorf hafa áhrif á hversu vel þér gengur, í leik og starfi.

Þegar aðrir horfa á þig í gegnum linsuna þína verður sýn þeirra á þig einnig lituð af þínum eigin viðhorfum.

Þeir sem horfa á þig í gegnum linsuna þína eru vinir, vandamenn, samstarfsfélagar, nágrannar o.fl.

Birtist þú öðrum sem lausnamiðaður einstaklingur eða einhver sem gefst upp við minnsta mótlæti?

Ert þú einstaklingur sem aðrir gleðjast yfir að eiga samskipti við eða einstaklingur þar sem öllum líður best þegar þú ert víðs fjarri?

Hugsar þú bara um að koma þér áfram eða hugsar þú líka um að hjálpa öðrum við að ná árangri?

Ég er ekki að leggja til að þú hagir lífi þínu, hvort heldur í leik eða starfi, algerlega út frá áliti annarra en í nútímasamfélagi og vinnuumhverfi eru samskipti og framkoma veigamikill þáttur og í því samhengi skipta viðhorf þín mjög miklu máli.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.