Skoðun
Þorsteinn Þorsteinsson,
áhugamaður um skynsamlega nýtingu auðlinda

Er sæstrengurinn munaðarlaus?

Þorsteinn Þorsteinsson skrifar

Á síðasta kjörtímabili var þáverandi iðnaðarráðherra mjög áhugasamur um möguleika á að leggja sæstreng fyrir raforku á milli Íslands og Evrópu. M.a. var skipaður rágjafarhópur sem skilaði af sér áliti um mitt árið 2013. Í kjölfarið hefur Landsvirkjun lagt háar upphæðir í áframhaldandi könnun á þessu verkefni, auk kynningarstarfs. Ekki liggur fyrir hvað þær upphæðir eru háar en ekki kæmi á óvart þótt þær hlypu á hundruðum milljóna króna.

Í niðurstöðum ráðgjafarhópsins kom m.a. fram að margir óvissuþættir væru tengdir verkefninu eins og t.d. hækkun á orkuverði til almennings og umhverfisþættir. Í útvarpsþættinum Laugardagsviðtalið á Rás 1 frá 9. maí sl. þar sem Egill Helgason ræddi við Ketil Sigurjónsson, einn helsta hvatamann sæstrengsins, kom m.a. fram að engar viðræður væru í gangi á milli íslenskra og breskra stjórnvalda í þessu máli.

Í hvaða skjóli skákar Landsvirkjun?
Stefna ríkisstjórnar Steingríms J. Sigfússonar var mjög í þá veru að veita málinu brautargengi en núverandi ríkisstjórn virðist ekki jafn sólgin í slíkt ævintýri og er ekki með sæstrengsmálið á sinni stefnuskrá. Því er eðlilegt að spyrja: „Í hvaða skjóli skákar þá Landsvirkjun?“

Ljóst er að um verkefni af þessari stærðargráðu þarf að ríkja þjóðarsátt en einnig pólítísk sátt. Nú er Landsvirkjun í eigu ríkisins og sem slík skyldi maður ætla að hún ætti að lúta stefnu stjórnvalda hverju sinni, einkum og sér í lagi í þessa stóra máli. Hér má því spyrja sig af hverju enn sé verið að verja svo miklu almannafé í könnun á þessu máli ef það hefur ekki pólitískan bakstuðning stjórnvalda?

Hækkandi raforkuverð og minni sveigjanleiki
Það má vera ljóst að með tilkomu sæstrengs á milli Íslands og Bretlands mun raforkuverð til íslenskra fyrirtækja og almennings hækka, en raforkuverð til almennings hér á landi er hið lægsta í Evrópu. Jafnframt missa stjórnvöld úr hendi sér stjórntæki til að styðja t.d. við bakið á atvinnugreinum á borð við garðyrkju með lækkuðu orkuverði en slík aðstoð yrði óheimil. Því vaknar sú spurning hvort það samræmist stefnu Landsvirkjunar sem fyrirtækis í eigu ríkisins, að leggja svo mikla áherslu og fé í þetta verkefni þegar útkoma þess, ef af verður, verður neikvæð að þessu leytinu.

Sumir myndu e.t.v. halda því fram að hér verði menn að horfa á stóra samhengið með tilliti til þjóðarhags. Í því sambandi vaknar sú spurning hvort frekar eigi að selja orkuna til innlends iðnaðar sem skapar störf í landinu og þar með virðisauka, eða selja orkuna beint úr landi eins og gert var með fiskinn í gamla daga þegar siglt var með hráefnið óunnið til Bretlands og Þýskalands. Vissulega getur þetta verið samræmanlegt en það kallar þá á fleiri virkjanir á stærð við Kárahnjúkavirkjun sem yrði mjög umdeildur kostur.

Er verið að byrja á röngunni?
Margar spurningar vakna í þessu sambandi eins og t.d. um auðlindastefnu, atvinnu- og byggðamál. Þetta eru allt stórar pólitískar spurningar sem eðlilegt er að ráðamenn þjóðarinnar móti skýra stefnu um áður en lengra er haldið. Er ekki verið á byrja á röngunni með því að leggja stórfé í könnun á sæstrengnum ef ekki liggur fyrir pólitískur einhugur í málinu? Ekki liggur heldur fyrir hvaða áhrif lagning sæstrengs hefði á þjóðarbúið í heild. Er það virkilega í verkahring Landsvirkjunar að kanna þau áhrif eins og um einhverja þjóðhagsstofnun sé að ræða?Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Klám

Guðmundur Brynjólfsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.