Íslenski boltinn

Ég er ekkert hissa á þessari byrjun okkar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson spilaði vel í sínum fyrsta leik í Pepsi-deild karla.
Hilmar Árni Halldórsson spilaði vel í sínum fyrsta leik í Pepsi-deild karla. Vísir/Valli
„Það er ekkert annað. Ég þakka kærlega fyrir það,“ sagði hinn kurteisi Leiknismaður Hilmar Árni Halldórsson er honum var tjáð að hann hefði verið valinn besti leikmaður 1. umferðar í Pepsi-deild karla.

Hilmar Árni var frábær á miðjunni hjá Leikni sem vann magnaðan 3-0 sigur á Val í fyrsta leik félagsins í efstu deild. Hilmar Árni skoraði þriðja mark leiksins.

„Ég er ekkert hissa á þessari byrjun okkar. Við mættum vel undirbúnir og höfum fulla trú á okkur. Þess vegna gekk vel þennan dag,“ segir Hilmar Árni en hann var valinn besti leikmaður 1. deildar á síðustu leiktíð. Hann sýndi í þessum leik að hann á fullt erindi í deild þeirra bestu.

„Ég reyni að einbeita mér að því sem við erum að gera á vellinum. Ekki að neinu öðru. Ég hef trú á liðsfélögum mínum og þeir hafa trú á mér. Við reynum að vinna þetta saman sem ein heild.“

Miðjumaðurinn hefur engar áhyggjur af því að þessi fína byrjun og öll fjölmiðlaathyglin sem hefur fylgt henni muni stíga liðinu til höfuðs.

„Við erum búnir að ganga í gegnum ýmsa hluti þó svo við höfum ekki gert það í efstu deild. Þjálfararnir hafa stillt okkur vel af og fengið okkur til að einblína á næsta verkefni. Það hefur gengið vel og menn eru bara að hugsa um næsta leik,“ segir Hilmar Árni og segir liðið vel vita hvað þurfi að gera svo fleiri stig komi í hús.

„Við verðum að halda áfram að leggja fram mikla vinnu. Við erum á fínni leið en þetta er auðvitað bara rétt að byrja. Ég hef engar áhyggjur af því að við munum ekki halda áfram að leggja hart að okkur og reyna að bæta okkur sem lið. Það var mjög gaman í fyrsta leik og mikil stemning. Ég vona að það verði margir á fyrsta heimaleiknum okkar á mánudaginn. Það er flott stemning í kringum starfið og vonandi verður framhald á því.“

Leiknir tekur á móti ÍA í nýliðaslag á mánudag og leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×