Lífið

Ef ég væri ekki rithöfundur væri ég á bótum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kristín segir að hún gæti aldrei unnið á venjulegum vinnustað og að sé sorgleg ástæða þess að hún sé rithöfundur.
Kristín segir að hún gæti aldrei unnið á venjulegum vinnustað og að sé sorgleg ástæða þess að hún sé rithöfundur. vísir/pjetur
Kristín Eiríksdóttir gaf út sína fyrstu bók 23 ára gömul. Í dag er hún 34 ára og hefur afkastað miklu síðustu tíu árin, skrifað skáldsöguna Hvítfeld, ljóðabækur og leikverk. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrr á árinu fyrir ljóðabók sína Kok og í gærkvöldi frumsýndi Sokkabandið nýtt leikverk eftir hana, Hystory.

„Ég byrjaði svo snemma enda var ég ákveðin í því frá unga aldri að verða listamaður. Ég hef í raun aldrei unnið við nokkuð annað. Þegar ég var unglingur las ég viðtal við Sverri Stormsker þar sem hann sagðist hafa ákveðið 17 ára gamall að vinna aldrei við neitt annað en tónlistina. Það hafði rosaleg áhrif á mig,“ segir Kristín og skellihlær.

„Auðvitað hefur það kostað blankheit og afkomuótta en þetta hefur orðið auðveldara eftir því sem ég geri meira. Það er svolítið fyndið að ákveða svona að verða listamaður. Ég man að þegar ég var yngri þá fannst mér það svolítið hjákátlegt. Eins og þegar ég er spurð við hvað ég vinn og segjast þá vera rithöfundur. Svo er ég skráð í símaskránni sem rithöfundur. Ég fékk lengi kjánahroll yfir því, eins og ég væri að reyna að vera eitthvað, en ég er hætt því núna.“

Sæki í sjóðinn hjá sjálfri mér

En er þetta erfiður bransi? Er erfitt að lifa á listinni?

„Já, en ég held að allir bransar séu erfiðir á sinn hátt. Það sem er kannski erfiðast er að maður þarf alltaf að vera að berjast fyrir tilvistarrétti sínum. Maður skrifar kannski afleita bók sem öllum finnst glötuð og þá spyr maður sjálfan sig hvort maður megi þá ekki lengur vera rithöfundur. Svo hefur maður litla stjórn á vinnunni. Vissulega er mikil tækni og iðn fólgin í því að vinna með tungumálið en svo er eitthvað annað sem kemur yfir mann og maður hefur enga stjórn á. Eins og þegar ég byrja á nýrri sögu eða verki þá byrja ég aftur og aftur og aftur. Er með endalaus skjöl og mismunandi byrjanir. Það er eins og ég sé sjóður og sé að sækja um hjá sjálfri mér. Svo þegar eitthvað kviknar, ef ég fæ upphaf sem kveikir í mér, þá fer ég af stað og skrifa þar til verkið er tilbúið. Tilhugsunin um að þetta gerist ekki, að ég fái ekki þörfina aftur til að segja sögu, er óhugnanleg. Ég reyni þó að dvelja ekki við tilfinninguna.

Ég reyni samt að vera ekki með egóið í þessu, sem er ákveðin jafnvægiskúnst. Egóið getur nefnilega orðið svo frekt. Þannig að ég reyni að líta á skáldskapinn sem óviðkomandi mér og gleymi til dæmis oft að fólk sem les bækurnar mínar gæti tengt þær við mig. Þegar ég skrifaði skáldsöguna Hvítfeld fattaði ég að aðalpersónan er kona á mínum aldri, sagan er í fyrstu persónu og hún segir frá mjög ógeðslegum leyndarmálum. Ég fattaði þegar bókin var farin í prentun að fólki gæti dottið í hug að ég væri að fjalla um mig og mína fjölskyldu.“

Kristín kýs frekar að segja hlutina beint út í verkum sínum í stað þess að tala undir rós, sem henni þykir bara klígjulegra. fréttablaðið/pjeturvísir/pjetur
Viðkvæm með stæla

Kristín skefur ekki utan af því í verkum sínum. Hún er kjaftfor og er lítið að fegra hlutina. 

„Ég held að það sé vandamál hjá mörgum höfundum að þeir skrifi óvart fyrir ömmu sína. Ég er svo heppin að eiga ömmu sem er mjög víðsýn. Ég átti samtal við hana þar sem þetta bar á góma. Hún skildi ekki af hverju ég þurfti stanslaust að tönnlast á þessum ljótu orðum. Ég sagði við hana að mér fyndist alveg jafn mikið tönnlast á þessum orðum undir rós – sem mér fyndist í raun enn klígjulegra. Hún var alveg sammála mér. Kannski er ég svona heppin með ömmu.“

En ert þú svona gróf týpa sjálf?

„Nei, viðkvæmni hefur frekar háð mér en maður kemur sér upp einhverjum stælum. Sem eru líka hluti af því hver ég er.“ 

Kristín býr ein og vinnur að mestu ein. Hún segist ekki vera mikið félagsmálatröll. 

„Ég er góð mann á mann, en um leið og það eru komnir svona fimm þá ruglast ég. Ég ræð hverja ég hitti og ræð tíma mínum alveg sjálf. Það er algjör draumur. En ég hef engan sjálfsaga og hef enga rútínu á deginum mínum. Þess vegna er svo mikilvægt að fá þetta upphaf til mín og þörfina til að skrifa. Annars finnst mér þessi lífsstíll svo eðlilegur þar sem ég ólst upp hjá listamönnum.“ 

Mamma í veröld Dostojevskís

Kristín er dóttir Ingibjargar Haraldsdóttur, rithöfundar og þýðanda, og Eiríks G. Wulcan ljósmyndara.

 

„Ég ólst upp í blokk í Hólunum. Í þessum blokkum er oft sameiginlegt rými í kjallaranum sem er notað sem leikherbergi fyrir börnin. Nema að þetta sameiginlega rými fylgdi íbúð foreldra minna og þar voru þau með vinnustofu – í gluggalausu rými undir blokk í Hólahverfinu. Þar sat mamma og bjó í veröld Dostojevskís og Búlgakovs. Ég mátti trufla hana ef það var eitthvað mjög áríðandi. Rithöfundarstarfið er mjög krefjandi að því leyti að maður stimplar sig ekki út eða inn og það er ákveðin fjarvera sem fylgir þessu starfi. Ég upplifi oft að ég sé að endurtaka líf móður minnar að þessu leyti enda held ég að ég sé mjög lík henni. En mér finnst líka mjög gott að fá að dvelja í ímynduðum heimi bróðurpart dags.“ 

Kristín segir eitthvað vera að fólki sem ákveður að verða rithöfundar.vísir/pjetur
Listin og réttlætiskenndin

Kristín hefur undanfarið ár unnið með leikhópnum Sokkabandinu og skrifaði leikverkið Hystory sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Verkið fjallar um þrjár konur á fertugsaldri sem voru bestu vinkonur í grunnskóla. Síðan kemur upp atvik á milli þeirra sem veldur vinslitum. Verkið gerist síðan eina kvöldstund þegar þær hittast til að eiga einhvers konar uppgjör. 

„Verkið fjallar líka um líf þeirra og hvaða afleiðingar þetta atvik hafði á það. En síðast en ekki síst fjallar verkið um þessa einföldun sem felst í því að ætla að hreinsa eitthvað. Þessar þrjár konur eru mistilbúnar til þess að horfast í augu við fortíðina. Einnig er komið inn á líkamsminnið. Þegar líkaminn bregst við manneskjum úr fortíðinni með því að teyma mann inn í gömul samskipti. Fyrir einhverja töfra verður maður aftur tíu ára. Þetta kemur örugglega oft fyrir fólk á endurfundum við gömul skólasystkini.“ 

Kristín skráði sig ung í femínistahóp og segist vissulega vera femínisti og með pólitískar hugmyndir. Aftur á móti reynir hún ekki að koma pólitískum skilaboðum áfram með skrifum sínum, þótt það gerist stundum ósjálfrátt. 

„Ég var ung þegar ég áttaði mig á því að þetta eru tvær ástríður hjá mér. Listin og réttlætiskenndin. Mannlegt eðli er mitt áhugasvið í skrifunum auk ákveðinnar fagurfræði og táknfræði. Ef réttlætiskenndin mín fer þarna inn líka, sem er svo sterk tilfinning, þá verður þetta of flókið. Ég ákveð ekki hvað ég ætla að skrifa eða hvaða stöðu ég ætla að taka. Ég skrifa um mannlegt eðli, bresti, lesti og óréttlæti, en það þarf að vera ómeðvitað og er of flókið til að setja í pólítískan ramma. Það er bara ekki hægt að gera kröfu um afstöðu og rétthugsun í listinni.“ 

Krísa og spunanámskeið

En aftur að leikhúsinu. Hvernig var að stíga út fyrir ímyndaða og einangraða heiminn og fara að vinna með heilum leikhópi við að setja upp leikverk? 



„Mér þykir ósköp passlegt samneyti við fólk að vera leikskáld. Ég fæ að vera furðufuglinn á kantinum en er samt mikilvæg. Fyrstu vikurnar eru svo skemmtilegar þegar allir sitja, pæla í verkinu saman og deila reynslusögum. Það er alveg magnað að hlusta á leikara. Þeir eru búnir að fara út um allt, hitta svo mikið af fólki og lenda í alls kyns ævintýrum. Þá finnst mér ég sitja föst í mínum sérviskulegu pælingum og tengjast fólki sem er ekki til á meðan lífið er að gerast þarna úti. Mitt líf gerist voða mikið í hausnum á mér. Ég fór satt best að segja í svolitla krísu við þetta og stressaðist upp. Ég sá sjálfa mig fyrir mér eyða næstu áratugum við tölvuskjá og safna vöðvabólgu. Þannig að ég skráði mig á spunanámskeið. Það kom í ljós að ég get ekki spunnið því ég hvísla bara. Svo var ég að spá í að skrá mig í skotfimi og gúgglaði kafararéttindi á milljón.“

Sorglegt að vera rithöfundur

En Kristín fór ekki lengra með þær pælingar og er nú að undirbúa sig undir næstu törn. Á næsta ári kemur út skáldsaga eftir hana og því er hún að fara að leggjast í hýði. 

„Ég hef aldrei neitt að segja þegar ég er komin á kaf í verkefni. Ég hitti fólk en í mesta lagi hlusta á það og reynslu þess til að stela því. Það er eitthvað mjög sorglegt við að vera rithöfundur. Að mínu mati er bara eitthvað að manni ef maður velur þetta starf. Ég myndi aldrei virka á venjulegum vinnustað. Ég myndi aldrei mæta á réttum tíma, ég væri alltaf utan við mig og ég myndi bara vera rekin. Sem er einmitt sorgleg ástæða þess að ég er rithöfundur. Ef ég væri ekki rithöfundur þá væri ég á bótum. Ég þarf til dæmis varla að fara úr stofunni heima hjá mér. Þegar ég skrifaði Hvítfeld notaði ég mikið raunveruleikaþætti í sjónvarpinu, til dæmis Housewives of Orange County. Svo lá ég á Google Maps og fór í göngutúra í Texas, en þar gerist sagan að hluta til. Ég gat bara verið á bleikum sloppi að horfa á sjónvarp. Í vinnunni. Bætur eða listamannalaun – þú mátt velja,“ segir Kristín og skellir upp úr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×