Leikjavísir

Villimenn í Rómaveldi

Samúel Karl Ólason skrifar
Það er fátt meira gefandi en að verja landamærabæi Rómaveldis fyrir villimönnum.
Það er fátt meira gefandi en að verja landamærabæi Rómaveldis fyrir villimönnum.
Total War serían er fyrir löngu orðin þekkt um allan heim fyrir að setja aðdáendur tölvuleikja í fótspor helstu hershöfðingja sögunnar. Hvort sem það er í Grikklandi til forna, Evrópu á miðöldum, heiminum á nýlendutímanum. Í fyrstu lítur Total War: Attila ekki út fyrir að hafa tekið miklum breytingum frá forvera sínum, Total War: Rome 2. Það er þó eingöngu við fyrstu sýn. Atli Húnakonungur stendur vel undir sjálfum sér.

Leikurinn byrjar árið 395, þegar rómverska keisaraveldinu var skipt upp í tvo hluta. Kuldaskeið skellur á og hver ættbálkurinn á eftir öðrum setur stefnu sína á rík lönd í vesturhluta keisaraveldisins. Austrómverska keisaraveldið á einnig undir högg að sækja í austri og Húnar ógna landamærunum í norðri.

Grafík leiksins er gífurlega flott, en framleiðendurnir, Creative Assembly, hafa gefið út að enn séu ekki til þrívíddarkort sem ráða við hámarksgrafík leiksins.

Spilun leiksins er töluvert öðruvísi en gengur og gerist í Total War-seríunni. Spilarar hafa áður þurft að byggja upp sín eigin stórveldi frá byrjun. Núna byrjar maður hins vegar með mörg lönd þar sem ástandið er ekki gott og uppreisnarhópar og hungursneyð skjóta reglulega upp kollinum. Mögulegt er að spila sem báðir hlutar Rómaveldisins, Sassanídakeisaraveldið, Húnar eða Saxar og margir fleiri þjóðflokkar.

Það er þó fátt meira gefandi en að takast að verja landamærabæi Rómaveldis fyrir villimönnum sem eru mun fleiri en þínir menn. Total War-serían er orðin stórveldi út af fyrir sig og Attila er hin fínasta viðbót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×