Lífið

Dansar við lyfin með Jónas í hönd

Magnús Guðmundsson skrifar
Hjónin Sigurður Pálsson og Kristín Jóhannesdóttir eru samheldin hjón og standa þétt hlið við hlið í lífi og starfi.
Hjónin Sigurður Pálsson og Kristín Jóhannesdóttir eru samheldin hjón og standa þétt hlið við hlið í lífi og starfi. vísir/valli
Það er bjart yfir þeim hjónum Sigurði og Kristínu þar sem þau sitja í leikstjóraherbergi Þjóðleikhússins. Á milli þeirra ást og virðing þar sem engra orða er þörf. Þau Kristín og Sigurður búa yfir ómótstæðilegri blöndu af ljúfmennsku og sköpunarkrafti sem nýtist þeim vel þessi dægrin.

Kristín vinnur að uppfærslu á Segulsviði, nýju leikverki eftir Sigurð, á fjölum Kassans í Þjóðleikhúsinu og hann er henni til halds og trausts. En Sigurður hefur í vetur tekist á við krabbameinsmeðferð með Kristínu sér við hlið, myndlíkingu að vopni og ljóð Jónasar í hönd. En fyrst af öllu hugum við að leikhúsinu því eins og þau benda á þá er listin oft svo langt á undan lífinu.

Kristín og Sigurður að störfum í leikhúsinu. "Ef okkur kæmi ekki saman þá væri þetta skelfilegt,“ segir Kristín um samstarfið við eiginmanninn.vísir/valli
Að missa aðdráttaraflið

Sigurður segir upphafspunkt Segulsviðs liggja í draumi sem hann dreymdi í þrígang fyrir tíu til tólf árum.

„Mig dreymdi unga konu sem situr á dyraþrepi við hornið á Vatnsstíg og Laugavegi. Hún reynir að grípa í vegfarendur en það forðast hana allir – hún hefur misst aðdráttarafl sitt og reynir því að tala við vinkonur sínar Rigninguna og Nóttina, þær einu sem nenna að hlusta á hana. Tilfinningin fyrir þessari konu varð svo sterk að ég neyddist til að fá botn í það af hverju hún væri í þessum kringumstæðum. Það er upphafið að þessu verki sem er í raun heilunarferli aðalpersónunnar.“

Segulsvið segir frá ungri konu sem hefur orðið fyrir því áfalli að missa eiginmann sinn sem drap sig úr dugnaði eftir að hafa notið gríðarlegrar velgengni. Unga konan gengur út úr erfidrykkjunni og áttar sig á að hún hefur ekkert aðdráttarafl lengur. Reikar svefnlaus um borgina og nýtur stuðnings tveggja kvenna, Rigningarinnar og Næturinnar.

„Hún þróast hjá Nóttinni og Rigningunni, konunum sem heila hana,“ tekur Kristín við og það er erfitt að verjast þeirri hugsun hversu sterk bönd sköpunarkrafts liggja á milli þeirra hjóna og Kristín heldur áfram: „Nóttin hefur sporgöngu um heilun ungu konunnar. Nóttin er náttúruafl og höfuðskepna í höfundarverki Sigurðar alveg frá upphafi.“

Kristín og Sigurður í París á sextugsafmæli skáldsins.
Málið er að leita

Sigurði eru hugleikin tvískiptingin dagur – nótt sem er hin sama og prósi – ljóð, rök og tilfinningar.

„Segulsvið er líka verk um jafnvægi. Við á Vesturlöndum lifum með ofuráherslu á dagsformið – rökin og ég hef ekkert á móti því en ég vil bara að vegasaltið sé í lagi. Ef við værum bara með nóttina og allt þetta tilfinningatengda þá værum við eins og hipparnir hérna í gamla; á morgun ætlum við að gera hlutina.“ 

Kristín bætir við að þetta sé jafnvægiskúnst. „Það skilar engu að hlaupa eftir vegasaltinu endanna á milli og sporðreisast. Maður finnur aldrei hið fullkomna jafnvægi en málið er að leita – að fikra sig í báðar áttir og þegar farvegurinn er í lagi getur maður látið nánast hvað sem er flæða.“

Gagnkvæm virðing og traust

Kristín og Sigurður eru samhent og þeim fellur vel samvinnan í leikhúsinu. Kristín segist ekki geta ímyndað sér betri höfund að vinna með vegna þess að Sigurður skilur leikhúsið – nærveru og fjarveru þegar sviðsetningin tekur við. Sigurður bendir á að þetta hafi verið mikilvægur þáttur í hans menntun í leikhúsfræðum við Sorbonne.

„Leikritahöfundur skrifar og er ábyrgur fyrir listaverkinu leikrit en uppfærsla leikrits er annað og sjálfstætt listaverk og þar er ábyrgðaraðilinn leikstjórinn. Sýningin verður að hafa sitt sjálfstæði og leikstjóri fá svigrúm til þess að bera ábyrgð á sínu listaverki.“

Kristín: „Ef okkur kæmi ekki saman þá væri þetta skelfilegt. En ég virði og treysti því verki sem hann hefur skrifað og við megum bæði koma með tillögur til hvort annars – hann er til staðar þegar ég bið hann um það og hann kann að sleppa. Þetta er fimmta leikritið eftir Sigurð sem ég stjórna en vissulega ræðum við alltaf mikið um listir og veltum vöngum – finnum fleti á sköpun.“

Sigurður fékk þetta forláta reynitré í fertugsafmælisgjöf og er þarna ásamt Jóhannesi Páli syni þeirra hjóna.
Hvort tveggja ferðalag

Við erum komin að veikindum Sigurðar sem gefur sér góðan tíma og leggur áherslu á að hann sé ekki og verði aldrei fórnarlamb. Skapandi hugsun og glettni eru áfram innan seilingar enda lítur Sigurður svo á að Segulsvið og veikindin séu hvort tveggja ferðalag.

„Ég á því láni að fagna að verða ekki fyrir sams konar áfalli og Unnur, aðalpersóna Segulsviðs, en þetta er ekki síður alvarlegt. Síðla síðasta sumars var ég greindur með krabbamein, svokallaðan asbest-krabba. Hann er mjög sjaldgæfur og orsökin bara ein – náin kynni af asbesti. Er ég með asbest heima hjá mér daglig dags? Ónei. Asbest var hins vegar í útihúsunum heima á Skinnastað, eins og hringinn í kringum landið, þegar ég var barn og unglingur. Þetta efni brann ekki og það var byggt úr þessu. Hlöður jafnt sem eldhólf í herskipum. Mjög fínt efni og það hefur ekki fundist betra efni til eldvarna.“

„En það drepur,“ skýtur Kristín inn í en Sigurður heldur ótrauður áfram: „Asbest-krabbi fer í dvala áratugum saman – enginn veit af hverju og enginn veit af hverju hann vaknar. Þetta er eingöngu í brjósthimnunni. Ég var farinn að mæðast því hægra lungað starfaði aðeins 50% svo ég fór í rannsóknir á rannsóknir ofan og þetta var niðurstaðan. Það er ekki hægt að skera eða hitta með geislum því hann er dreifður um himnuna – þannig að það eru lyf sem er beitt á hann til þess að halda aftur af honum því þetta er ólæknandi. Þannig að í haust og fram yfir áramót fór ég í fjögurra og hálfs mánaðar lyfjameðferð á þriggja vikna fresti. Sat í Lazy-boy og það lak í æð klukkutímunum saman.“

Kristín og Sigurður tóku að sér fararstjórn í Marokkó árið 1978.
Ekki hlusta á hryllingssögurnar

Sigurður er mjög ánægður með krabbameinslækni sinn og allt það fólk sem hann hefur þurft að hitta og kynnast. Auk þess sem hann telur allt utanumhald vera mjög þægilegt og skilvirkt.

„En ég hjó eftir einu,“ segir Sigurður og hér er greinilega á ferðinni eitthvað sem vakti athygli skáldsins: „Að krabbameinslæknirinn lagði mjög mikla áherslu á andlegu hliðina. Það kom mér soldið á óvart af því að okkur finnst eins og læknar vilji ekki svona nálgun. Alls ekki. En andleg innstilling er lykilatriði – t.d. gagnvart lyfjunum. Það eru aukaverkanir af þessu – þetta eru sterk lyf, sagði læknirinn mér hreint út og bætti við með áherslu: Ekki hlusta á hryllingssögurnar um aukaverkanir. Þú munt heyra þær – og hversu rétt var það ekki. Maður var meðal kunningja og sagði þessar fréttir. Von bráðar fóru að koma þessar sögur um frænku konunnar og hitt og þetta.

Þá fór ég að hugsa um viðhorf mitt til lyfjanna og það var einfaldlega: Að ég ætlaði að ganga í lið með lyfjunum og ég ætlaði þeim að ganga í lið með mér. Það sem ég gæti gert með minni innstillingu ætlaði ég að reyna að gera.“

Ég dansa við lyfin

Nú tók hugur skáldsins til starfa af fullum krafti og Sigurður þekkir sjálfan sig, eðli sitt og styrkleika.

„Ég er þannig samansettur að ég skil aldrei hluti til fulls fyrr en þeir eru komnir í myndlíkingu. Til þess að ná tökum á lyfjameðferðinni sem beið mín skapaði ég því eftirfarandi myndlíkingu: Ég sá fyrir mér dansleik og þú kemur í anddyrið og færð úthlutað dansfélaga. Dansfélaginn sem mér er úthlutað eru lyfin og þessi dansfélagi kann að vera með stæla og kannski sparka í mig í miðjum dansi sem er líking fyrir aukaverkanirnar. Og ég ákvað að ég mundi ekki hlaupa út af dansgólfinu eða fela mig heldur bara halda áfram að dansa við þennan dansfélaga og sinna spörkunum ekkert. Síðan kom lokaparturinn í myndlíkingunni sem ég er eiginlega ánægðastur með – að einbeita sér að því að hlusta á tónlistina sem hljómsveitin er að spila sem er lífið.

Þá var ég loksins búinn að koma mér niður á fast með mitt viðhorf til lyfjagjafarinnar. Ég var farinn að skilja þetta algjörlega af því að það var komin myndlíking.

Sigurður með Jónas í hönd í lyfjagjöf.
Myndlíking sem þerapía

Ég hef alltaf haft ofurtrú á myndlíkingum, kannski bara vegna þess að ég skil ekki nokkurn skapaðan hlut djúpum skilningi án myndlíkingar. Það er alltaf komið fram við þetta eins og þetta sé skraut eða óþarfi. Fyrir mér er myndlíking þekkingartæki. Af því að þannig kemst ég til skilnings á smáu sem stóru í veröldinni eins og í þessu tilviki hvernig ég á að bregðast við ansi sterkum lyfjum sem ég mun verða á næstu mánuði. 

Það sem mig grunaði nú eiginlega ekki er að myndlíking skuli hafa praktískt og þerapískt gildi sem meðferðaraðilar vilja nýta. Ég er kominn í vangaveltur með heilbrigðisstarfsfólki sem vill gera eitthvað með þetta. Myndlíkingar sem þerapískt tæki. Það sem þeim þótti merkilegt var að það er búið að mynda farveg fyrir hugann og þess vegna þolir maður meira. Ég er ekkert alltaf að muna mína myndlíkingu en hún er komin til starfa innra með mér. Svo lendi ég í einhverjum uppákomum með aukaverkanir og þá er ég bara í augnablikinu að berjast eins og fiskur í neti, en undir niðri liggur myndlíkingin og hjálpar mér af því að ég er búinn að ákveða að hlaupa ekki af dansgólfinu. Ég held áfram að dansa við geggjaðan danspartner og gæti þess að gleyma ekki að hlusta á tónlistina sem hljómsveitin er að spila. Og ég man eftir lífsþorstanum.“

Jónas og jólasveinninn

Kristín hefur setið þögul hjá með hlýrri nærveru sem fyllir herbergið. Það kemur dálítil þögn sem hún rýfur mjúklega.

„Það er eitt sem mér finnst líka vera mjög mikilvægt í þessu. Nú sit ég alltaf hjá honum og hann hefur í hvert einasta skipti í þessari lyfjainngjöf setið með aðra höndina tengda við snúrur og lyfjapoka. En í hinni hendinni hefur hann alltaf haldið á Jónasi Hallgrímssyni. Pínulítilli útgáfu frá 1903.“

„Ritröðin Bragi númer fjögur,“ skýtur Sigurður inn í brosandi og uppnuminn yfir bókinni en Kristín heldur rólega áfram: „Hún er svo smá að hún passar í lófa og hún passar algjörlega í þessum kringumstæðum. Þú getur lesið alla bókina í hvert skipti.“

Hugur Sigurðar er hjá bókinni. „Ég fékk þessa bók frá foreldrum mínum á afmælinu mínu eftir ferminguna. Ég fermdist um vorið og á afmæli í lok júlí. Þetta var 1962 og um haustið kom ég til Reykjavíkur í skóla – byrjun á Táningabók.“

Hugur Kristínar er hjá Sigurði við lyfjagjöfina. „Jónas var þarna að róa okkur og umvefja með sínum myndlíkingum og snilld. Ég segi það bara, það er lækningarmáttur í ljóðlist snillinga – því Jónas er snillingur. Svo var það rétt fyrir jólin að Sigurður fékk snert af lungnabólgu og var sendur í röntgen. Myndin kom upp og við fengum að sjá hana. Það fyrsta sem ég rak augun í var í hægra lunganu sem þessi ófreskja var búin að fylla og var á leið yfir í vinstra brjóstholið þegar verst var.

En nú var einhvern veginn allt orðið miklu skýrara og í lunganu var mynd af manni með skeggkraga og ég sá ekki betur en það væri Jónas Hallgrímsson en læknahersingin var nú heldur betur á því að þetta væri jólasveinn.“ Þau hlæja bæði dátt og svo bætir Sigurður við: „Það byrjaði á joð alla vega.“

„Þarna erum við eins og Bonnie & Clyde“ segir Sigurður um þessa mynd sem er tekin í París í apríl 1979.
Sýnum honum svipuna

„Allt í einu lásum við svo í blöðunum: Sigurður er Jónas,“ segir Kristín brosandi og vísar þar til þess að Sigurður tók nýverið við stöðu Jónasar Hallgrímssonar við ritlist í Háskóla Íslands.

„Mér fannst þetta hálf óraunverulegt þegar þeir höfðu samband við mig, hvort ég vildi taka að mér þetta starf. En á sama tíma var eitthvað fullkomlega eðlilegt við þetta. Ég er búinn að vera með Jónas í annarri hendinni í krabbameinslyfjagjöf og niðurstaðan af þessum kúr var slíkur að læknarnir höfðu ekki séð annað eins. Því miður er aldrei hægt að uppræta asbest-krabba – virknin er alltaf til staðar og mun fara í gang ef þú sýnir ekki svipuna með jöfnu millibili. Ég er á einu lyfi núna á þriggja vikna fresti. Það er svona kúrsinn fram á vorið og svo sjáum við til.“ 

Gleði Kristínar með góðan árangur leynir sér ekki. „Nú er hann Jónas í brjósti Sigurðar og stendur vörð með ljómandi árangri því þetta gengur sérstaklega vel. Alla jafna er þetta bráðdrepandi sjúkdómur þegar hann er kominn í gang. En svo gerist þetta að ófreskjan hörfar með hjálp lækna, lyfja, Jónasar og myndlíkinga og þetta hörfar svo mikið að læknarnir hafa ekki séð annað eins. Það gefur möguleika á áframhaldandi lífi – reyndar með ólæknandi sjúkdómi en ágætu lífi engu að síður.“

Bene, bene

Kristínu er tíðrætt um framsýni listarinnar.

„Hún sér lengra – eins er með Segulsvið – allt í einu er maður staddur í sársaukafullri stöðu – hefur orðið fyrir höggi en svo fer maður inn í það sem verkið fjallar um og það er að takast á við leitina að jafnvægi og heilun. Listin getur verið lífsbjörg. Hún er heilandi afl.“ 

Sigurður vill taka fram að hann er lítið fyrir að tala um sín persónulegu mál. „Menn fara oft í fórnarlambsstellingar þegar það kemur eitthvað svona upp á– ég vildi ekki hlaupa í þá deild. En ég vildi miðla þessu með andlegu og huglægu innstillinguna – viðhorfinu til meðferðarinnar. Þetta er dagur og nótt. Prósi og ljóð – þetta er jafnvægi. Gleymum ekki andlegu hliðinni þrátt fyrir áföll. Rökfestan og Jónas. Er þetta þá ekki komið hjá okkur? Bene, bene.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×