Innlent

Þrjú nálgunarbönn felld úr gildi

viktoría hermannsdóttir skrifar
Alda segir hindranir á veginum en þau haldi áfram að kljúfa þær.
Alda segir hindranir á veginum en þau haldi áfram að kljúfa þær. Fréttablaðið/Pjetur
„Það er klárlega misræmi. Við hefðum ekki ákvarðað um nálgunarbann ef við teldum að dómsvaldið yrði okkur ekki sammála,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hæstiréttur hefur á þremur dögum fellt úr gildi þrjú nálgunarbönn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn mönnum sem grunaðir eru um brot gegn fyrrverandi sambýliskonum sínum. Í öllum þessum þremur málum telur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu líklegt að friðhelgi kvennanna verði ekki vernduð með öðrum hætti en nálgunarbanni.

Fyrr í mánuðinum var undirritaður samstarfssamningur Reykjavíkurborgar, velferðarsviðs, Barnaverndar og lögreglu um átak gegn heimilisofbeldi. Við undirritun samningsins kom meðal annars fram að lögreglan myndi í auknum mæli beita nálgunarbönnum og brottvísunum af heimilum.

Alda segir það vissulega vera vonbrigði að Hæstiréttur hafi komist að þessari niðurstöðu. „Þetta eru vonbrigði en við höldum bara ótrauð áfram. Það eru margar hindranir á veginum og við höldum áfram að kljúfa þær. Það er líka eitthvað í þessum dómum sem við getum breytt og bætt í okkar vinnu. Þetta er ekki heimsendir fyrir verkefnið.“

Alda segir að fleiri nálgunarbönnum hafi verið beitt undanfarið sem ekki hafi verið felld úr gildi. „Við vonum auðvitað að þetta verði ekki til þess að brotaþolar hætti að leita til okkar af því þeir haldi að þetta virki ekki. Þetta hefur hins vegar ekki áhrif á verkefnið sem slíkt en þetta hefur áhrif á þessi úrræði sem við beitum í þessum tilvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×