Innlent

Róttækar breytingar gerðar hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir skrifa
 Alda Hrönn valdi lögreglustörfin fram yfir lögmannsstörfin.
Alda Hrönn valdi lögreglustörfin fram yfir lögmannsstörfin. Fréttablaðið/Pjetur
Alda Hrönn Jóhannsdóttir er nýr aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur fengið mikið lof fyrir störf sín hjá lögregluembætti Suðurnesja þar sem vel tókst til í rannsókn mansalsmála og framkvæmd nýs verklags vegna heimilisofbeldis.

Það hafa orðið miklar og róttækar breytingar á yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH). Alda er og hefur verið náinn samstarfsmaður Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, nýskipaðs lögreglustjóra og fyrstu konunnar til að gegna embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Töluverð umræða hefur verið um lítinn hlut kvenna í æðstu stöðum innan lögreglunnar og Alda segir að tíma taki að breyta menningu lögreglunnar.

„Að breyta menningu tekur tíma. lögreglan er íhaldssöm, með gamalgróið kerfi og skipulag. Við erum til dæmis á mörgum stöðum í borginni, starfsemin er svo dreifð, en ég tel að við gætum náð betri árangri með því að þjappa henni betur saman,“ segir Alda frá og nefnir að húsnæðið á Hverfisgötu sé úr sér gengið og henti illa starfseminni.

Hún segir að reynt hafi verið að gera það besta úr fyrirkomulaginu.

„Eins og þetta var þá voru allir stjórnendur á fimmtu hæðinni. Almennt fór starfsfólk ekkert inn á þann gang nema það ætti þangað erindi. Það breyttist þegar Sigríður kom. Nú er yfirstjórnin dreifðari um húsið og stjórnendur nær starfseminni.“

Alda þekkir vel til löggæslumála, en hún hefur starfað innan lögreglunnar frá árinu 1999 og hefur víðtæka reynslu sem hún nýtir í starfi sínu sem stjórnandi. Löggæslustörf áttu hug hennar frá því að hún byrjaði sem afleysingamaður í lögreglunni í Hafnarfirði meðan hún var enn í laganámi við Háskóla Íslands.

„Ég byrjaði fyrst sem afleysingamaður í lögreglunni 1999, þá var ég þriðja árs nemi í lögfræði og leysti af á lögreglustöðinni í Hafnarfirði í tvö sumur. Ég útskrifaðist í febrúar en byrjaði að vinna mánuði áður og þá í lögreglumálum hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði. Þá voru þetta aðskilin embætti. Að vera lögreglumaður fannst mér vera eitt skemmtilegasta starf sem ég hef unnið, það höfðaði strax sterkt til mín. Refsirétturinn og réttarfarið fannst mér spennandi og ég valdi lögreglustörfin fram yfir lögmannsstörfin.“

Ekki í fílabeinsturni

Alda hefur undanfarin ár verið yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum og þá var hún saksóknari efnahagsbrota um eins árs skeið. Alda, sem lauk lögfræðiprófi frá HÍ 2001, vann líka hjá LRH um tíma og þekkir því nokkuð til embættisins.

„Við sameininguna árið 2007 fluttist ég hingað. Í lok árs 2007 byrjaði ég á Suðurnesjum og var þar alveg þangað til ég kom hingað aftur að undanskildu einu ári þegar ég var saksóknari efnahagsbrota. Það kemur sér vel fyrir mig núna að hafa sinnt mörgum störfum innan lögreglu. Ég hef starfað sem lögreglumaður, unnið að rannsóknum og gengið í mörg ólík störf innan lögreglunnar. Það hjálpar mér mjög í því starfi sem ég nú gegni,“ segir Alda ákveðin en með bros á vör.

Að stuðla að liðsheild er eftirsóttur eiginleiki lögreglumanna. „Það hefur alltaf skipt mig máli og komið sér vel, að geta unnið með fólki. Ég er mjög hlynnt stjórnunarstíl Sigríðar Bjarkar sem er í anda þjónandi forystu þar sem allir sameinast um markmið og vinna sameiginlega að bættum hag í þágu borgaranna. Hugmyndafræðin sem við höfum unnið að á Suðurnesjum síðustu ár er í þeim anda. Það hefur margt breyst á þeim 15 árum sem ég hef starfað í lögreglunni og stærstu breytingarnar fela í sér breytingar á stjórnunarháttum til góðs. Mér líkar þessi hugmyndafræði, að byrja í rótinni, finna rót vandans og vinna að henni í staðinn fyrir að vera alltaf að vinna úr afleiðingum. Við sem erum stjórnendur megum ekki vera í einhverjum fílabeinsturni. Við erum líka borgarbúar. Þetta er bara vinnan okkar.“

Mikil reynsla af mansalsmálum

Á meðal verkefna Öldu hjá LRH verður að hafa yfirumsjón með innleiðingu á nýju verklagi vegna heimilisofbeldismála, mansals og útlendingamála. Reynsla hennar frá Suðurnesjum af rannsóknum á mansali er allnokkur.

„Sigríður sendi mig strax á ráðstefnu um mansal eftir að hún tók við starfi sínu á Suðurnesjum. Ég var nýkomin heim þaðan þegar mansalsmálið byrjaði árið 2009 og sú þekking nýttist vel við rannsókn málsins. Það voru allir stjórnendur komnir í sama bátinn. Þess vegna gekk vel. Strákarnir sem unnu þetta með okkur unnu eftir sömu hugmyndafræði og eiga jafn mikið í árangrinum sem varð af starfinu þar og við,“ segir hún og segir alla hafa fagnað nýjum vinnubrögðum.

Alda segir sér hafa verið vel tekið og að eðlilega hafi fólk væntingar til nýrra stjórnenda. Lögð hefur verið áhersla á að læra af reynslu nágrannaþjóða.

„Okkur hefur verið mjög vel tekið. Við sem störfum innan lögreglu erum lítið samfélag og við þekkjumst töluvert mikið. Margir þekkja okkur sem betur fer af góðu. Það eru ekki allir alltaf sammála en almennt hefur okkur verið tekið vel. Auðvitað hefur fólk væntingar til okkar. Það vill að við innleiðum þessa hugmyndafræði sem okkur tókst vel með á Suðurnesjum. Þetta eru engin geimvísindi, það eru allar nágrannaþjóðir að taka upp þessi vinnubrögð,“ segir hún og nefnir að stjórnendur hjá lögreglunni hafi töluvert nýtt sér reynslu erlendra lögreglumanna. Þá sérstaklega breskra og norrænna kollega.

„Við höfum kynnt okkur töluvert bresku hugmyndafræðina í heimilisofbeldi og yfirheyrslutækni. Þeir hafa verið mjög framarlega í þessum efnum og fengnir voru til landsins breskir sérfræðingar síðastliðinn vetur sem kenndu rannsóknarlögreglumönnum betri yfirheyrslutækni, sérstaklega í kynferðisafbrotum gegn börnum. Þeir kenndu ekki bara rannsökurum, heldur líka ákæruvaldinu og lögfræðingum sem vinna í þeim deildum sem rannsaka kynferðisbrot. Bretar eru að fá mál af annarri stærðargráðu en við og fjöldinn er miklu meiri. Þeir eru miklir sérfræðingar og hafa lent í því sem við erum að lenda í. Við viljum bæta þekkingu og læra af reynslu annarra þjóða.“

Vilja bæta samfélagið

Árangur vegna átaks gegn heimilisofbeldi hefur vakið mikla athygli erlendis. Hún segir að nú hafi tekið gildi nýjar verklagsreglur um slík mál í öllum lögregluembættum í landinu. „Við fórum til Madrid að kynna tilraunaverkefnið á Suðurnesjum að beiðni velferðarráðuneytisins á Spáni og á fleiri staði. Þetta er tiltölulega einfalt verkefni sem er byggt á starfsaðferðum sem við höfum fyrir og byggjum á. Það eru engar nýjar lagabreytingar, við erum bara að gera það sem við getum til að bæta samfélagið. Það er ekkert annað sem vakir fyrir okkur.

Á grundvelli verklagsins sem byrjaði á Suðurnesjum voru settar nýjar verklagsreglur hjá ríkislögreglustjóra sem eiga við öll lögregluembætti í landinu. Þær tóku gildi 2. desember. “

Alda nefnir að frá árinu 2005 hafi tekið gildi verklagsreglur um heimilisofbeldi en lögreglan hafi ekki unnið eftir þeim að öllu leyti. Nú sé það breytt. Viðhorfsbreyting hafi orðið í samfélaginu vegna heimilisofbeldis. Feluleikurinn er á enda. „Það voru settar verklagsreglur árið 2005 en við vorum ekki að vinna að öllu leyti eftir þeim. Ég held að það sé ekki ein skýring á því. Ég held að þær séu margar. Viðhorf lögreglunnar og samfélagsins var stundum að þetta væru einkamálefni fólks. Það varð líka viðhorfsbreyting í samfélaginu. Þetta hefur allt haft einhver ruðningsáhrif og það er ekki þessi feluleikur í dag. Það er meiri meðvitund um heimilisofbeldi.“

Loksins gerir einhver eitthvað

Minni ásókn í Kvennaathvarfið og aukin nýting á úrræðinu Karlar til ábyrgðar eru meðal þess sem Alda telur upp sem góðan árangur. Í upphafi var rætt um hvort aukin afskipti lögreglunnar myndu hafa fælingaráhrif á þolendur. Það hefur ekki orðið raunin og þolendur þökkuðu lögreglu fyrir að gera loksins eitthvað sem breytti gangi mála.

„Karlar til ábyrgðar var til dæmis of lítið nýtt úrræði en það varð töluverð mikil aukning í því eftir að átakið á Suðurnesjum hófst. Bæði vegna tilvísana frá barnaverndarnefnd þar sem börn voru og svo komu karlar líka sjálfir. Við höfum líka fengið upplýsingar frá Kvennaathvarfinu um að það sé mun minni ásókn kvenna í Kvennaathvarfið vegna þess að það var meira verið að beita úrræðum. Þetta er að virka. Þegar við byrjuðum á þessu verklagi árið 2013, þá held ég að ekkert okkar sem unnum að þessu höfum gert okkur grein fyrir því að þetta hefði svona mikil áhrif. Við vissum ekki alveg hvers við ættum að vænta.

Við spurðum okkur að því hvort fólk myndi hætta að tilkynna um ofbeldi ef við færum að auka afskipti okkar. Af því við viljum ekki að verklagið hafi fælingaráhrif. En það varð ekki raunin. Það var töluverð aukning á milli ára. Tilkynningum fjölgaði úr 41 máli 2012 í 56 mál árið 2013. Þannig að það hafði öfug áhrif. Á Suðurnesjum er nálægðin meiri og ég kom að mörgum þáttum verklagsins. Kom bæði að rannsóknum málanna og sótti þau. Þá fékk ég viðbrögð frá þolendum. Þeirra viðbrögð voru okkur mikil hvatning því sumir sögðu: Loksins. Loksins gerir einhver eitthvað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×