Innlent

Engar frekari rannsóknarheimildir lögreglu til umræðu

Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ekki hefði verið talið tilefni til að hækka vástig hér á landi í kjölfar hryðjuverkanna í París. Í skýrslu ríkislögreglustjóra um hættu á hryðjuverkum frá 2013 kemur meðal annars fram að ekki séu fyrirliggjandi neinar upplýsingar um að verið sé að skipuleggja eða undirbúa hryðjuverkaaðgerðir gegn skotmörkum eða viðburðum hérlendis. Þó er tekið fram að lögreglan búi ekki yfir sambærilegum forvirkum rannsóknarheimildum innan þessa málaflokks og tíðkast á Norðurlöndum.

Ólöf segir frekari rannsóknarheimildir lögreglunnar ekki hafa verið til umræðu undanfarið í ráðuneytinu. „Við erum aðilar að Schengen. Við höfum aðgang að gagnabönkum þeirra og ríkislögreglustjóri getur leitað í þá þegar ástæða þykir til ef verið er að skoða fólk sem liggur sérstaklega undir grun. Því er ekki beitt nema út af einhverjum sérstökum ástæðum.“

Ólöf segir jafnframt mikilvægt að fylgjast með því sem sé að gerast í þessum málum á alþjóðavettvangi. „Maður býst alveg eins við því að þessi umræða verði háværari. Á sama tíma verður að passa að ganga ekki of langt, að ganga ekki of nærri persónulegum högum fólks. Þarna vegast á persónufrelsissjónarmið og öryggissjónarmið og þetta er auðvitað vandasamt. Við þurfum alltaf að vanda okkur og fylgjast vel með,“ segir Ólöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×