Innlent

Yfirvinnutaxti embættismanna hækkar um 14,3 prósent

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Steinþór Pálsson
Steinþór Pálsson
Már Guðmundsson
Auk þess að hækka laun Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, um 24,6 prósent með sérstakri ákvörðun hefur kjara­ráð breytt viðmiðum yfirvinnugreiðslna. Við breytinguna hækka heildarmánaðarlaun annarra embættismanna sem undir ráðið heyra um nálægt þremur til rúmra sex prósenta.

Eftir almenna 9,3 prósenta hækkun kjararáðs á launum embættismanna 17. nóvember síðastliðinn voru heildarlaun bankastjóra Landsbankans komin í tæplega 1,6 milljónir króna, en inni í þeirri tölu voru 65 yfirvinnutímar í mánuði hverjum. Með ákvörðun sinni 17. desember síðastliðinn, afturvirkt frá 1. desember var bætt við laun Steinþórs 35 yfirvinnutímum til viðbótar. Fram kemur í ákvörðuninni að í beiðni bankaráðs Landsbankans um endurskoðun launakjara bankastjórans í nóvemberlok 2014 hafi verið farið fram á afturvirka hækkun frá 1. júní 2010, en við því var ekki orðið.

Þá hefur kjararáð hækkað einingaverð yfirvinnunnar þannig að hún miðar við eitt prósent af launaflokki 502-136, í stað 502-132 áður. Yfirvinnueiningin fer því úr 7.819 krónum í 8.934 og gildir það samkvæmt heimildum Fréttablaðsins um alla embættismenn sem slíkar einingar fá í launakjörum sínum.

Eftir breytinguna eru Steinþór Pálsson og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, jafnsettir launahæstu embættismenn ríkisins með heildarlaun upp á 1.949.691 krónu á mánuði. Í þriðja sæti er svo Már Guðmundsson seðlabankastjóri með rúmlega 1,8 milljónir króna.

Misjafnt er hversu margir yfirvinnutímar eru reiknaðir inn í laun embættismanna og forystufólks ríkisstofnana en 30 til 50 tímar eru algengir. Heildarlaun fólks í þeim hópi hækka því um 3,1 til 4,5 prósent. Hundrað yfirvinnutímar forstjóra Landsvirkjunar þýða að laun hans hafa hækkað um 6,1 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×