Fótbolti

Þjálfari Nantes um Kolbein: Hann er of þungur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Michel Der Zakarian, þjálfari franska úrvalsdeildarfélagsins Nantes, fer hörðum orðum um landsliðsframherjann Kolbein Sigþórsson í viðtali við Ouest-France.

Kolbeinn hefur skorað eitt mark í fjórtán leikjum síðan hann kom til Nantes í sumar og skrifaði undir fimm ára samning.

Der Zakarian er ekki ánægður með framlag Kolbeins á tímabilinu hingað til og segir að það séu meiri kröfur gerðar til hans en hann hafi hingað til sýnt.

Sjá einnig: Kolbeinn: Flott að vera kominn í lið þar sem ég fæ traust

„Kolbeinn hefur verið hér í sex mánuði og ekki náð mörgum heilum æfingavikum,“ sagði Der Zakarian í viðtalinu. „Það er ekki hægt að ná árangri þegar maður æfir ekki almennilega.“

„Til að fá góða tilfinningu fyrir liðsfélögunum þínum þarftu að æfa oft með þeim. Hann þarf að bera virðingu fyrir því sem félagið ætlast til af honum. Og gefa af sér. Ég held að forsetinn hafi gefið honum mikið og hann þarf að standa undir því.“

Sjá einnig: Býr enn á hóteli

Der Zakarian segir að liðið hafi breytt um leikkerfi fyrir Kolbein og hans leikstíl. „En hann þarf að hreyfa sig meira í kerfinu okkar. Ef hann myndi tapa 4-5 kílóum myndi hann hreyfa sig betur.“

„Hann þarf að tileinka sér betri lífstíl. Hann er of þungur. Í dag er árangur hans ekki góður. Miðað við fjárfestingu félagsins gerum við mun meiri væntingar til hans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×